Fótbolti

Noregur átti ekki í neinum vand­ræðum með Norður-Ír­land

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caroline Graham Hansen, leikmaður Barcelona, með boltann. Í bakgrunn er Lauren Wade, fyrrverandi leikmaður Þróttar Reykjavíkur.
Caroline Graham Hansen, leikmaður Barcelona, með boltann. Í bakgrunn er Lauren Wade, fyrrverandi leikmaður Þróttar Reykjavíkur. Marcio Machado/Getty Images

Noregur vann sannfærandi 4-1 sigur á Norður-Írlandi er liðin mættust í A-riðli Evrópumóts kvenna í fótbolta á fimmtudag. Sigurinn var einkar sannfærandi en töluverður getumunur er á liðunum.

Norska liðið er stútfullt af gæðaleikmönnum sem spila með bestu liðum Evrópu og hafa töluverða reynslu af stórmótum á meðan Norður-Írland var að spila sinn fyrsta leik á stórmóti. 

Markaskorarar Noregs í leiknum spila með Manchester City, Arsenal, Chelsea og Barcelona á meðan þrír leikmenn N-Írlands hafa á einhverjum tímapunkti spilað á Íslandi.

Leikurinn var aðeins tíu mínútna gamall þegar Julie Blakstad kom Noregi yfir með hnitmiðuðu skoti niðri í hornið nær. Aðeins þremur  mínútum síðar var staðan orðin 2-0, Frida Leonhardsen Maanum með markið. 

Það var svo sléttur hálftími liðinn þegar Noregur fékk vítaspyrnu, Caroline Graham Hansen þrumaði boltanum af öryggi í netið og staðan orðin 3-0. Fleiri  mörk urðu ekki skoruð í fyrri hálfleik og sigur Noregs svo gott sem kominn í hús.

Julie Nelson minnkaði muninn fyrir N-Írland snemma í síðari hálfleik en Guro Reiten sá til þess að endurkoman var ekki langlíf. Staðan 4-1 þegar enn voru 35 mínútur til leiksloka en mörkin urðu ekki fleiri og Noregur byrjar EM af krafti. Á sama tíma er ljóst að N-Írland á erfitt verkefni fyrir höndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×