Innlent

Báðir for­sjár­aðilar fá nú sjálf­krafa að­gang að Heilsu­veru barna sinna

Atli Ísleifsson skrifar
Við breytinguna munu báðir forsjáraðilar sjálfkrafa fá aðgang að Heilsuveru síns barns en aðgangur sem tengist lögheimili barns mun ekki lengur vera í gildi.
Við breytinguna munu báðir forsjáraðilar sjálfkrafa fá aðgang að Heilsuveru síns barns en aðgangur sem tengist lögheimili barns mun ekki lengur vera í gildi. Vísir/Vésteinn

Báðir forsjáraðilar barna sem búa á tveimur heimilum tengjast nú sjálfkrafa Heilsuveru barna sinna. Hingað til hefur aðgangurinn verið bundinn við lögheimili barnsins þó að forsjárforeldri, sem er ekki með lögheimili barnsins skráð hjá sér, hafi til þessa getað sótt sérstaklega um aðgang.

Breytingin hjá Heilsuveru tók gildi um nýliðin mánaðamót og kemur eftir að Þjóðskrá hóf að miðla upplýsingum um forsjá á rafrænan hátt.

Guðrún Auður Harðardóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð rafrænna lausna hjá Embætti landlæknis, segir í samtali við Vísi að breytingin hafi falið í sér að hætt sé að notast við svokölluð fjölskyldunúmer og lögheimili til að tengja börn við forsjáraðila.

Við breytinguna munu báðir forsjáraðilar sjálfkrafa fá aðgang að Heilsuveru síns barns en aðgangur sem tengist lögheimili barns mun ekki lengur vera í gildi. Breytingin hefur þó einnig það í för með sér að stjúpforeldrar á lögheimili barna missa aðgang að Heilsuveru barnanna.

Sitja við sama borð

Guðrún Auður segir að hægt hafi verið að ráðast í breytinguna í kjölfar lagabreytinga sem heimiluðu Þjóðskrá að miðla þessum upplýsingum rafrænt. Heilsuvera hafi svo tengst þessari rafrænni miðlun sem skili sér nú í breytingunni.

„Nú þekkir Heilsuvera því forsjárforeldra, ekki bara foreldra út frá lögheimili. Báðir forsjárforeldrar sitja því við sama borð. Aðgangurinn er að sextán ára aldri barna, en lög gera ráð fyrir að miðað sé við þann aldur vegna réttinda barna að geta sótt sér heilbrigðisþjónustu án vitundar foreldra.“

Mikill fjöldi umsókna í faraldrinum

Í faraldri kórónuveirunnar jókst notkun Heilsuveru mjög mikið þar sem verið var að bóka sýkatökur og fleira í gegnum vefinn.

Þar sem aðgangur foreldra að Heilsuveru barna hafi verið bundinn við lögheimilisforeldra hafi umsóknir forsjárforeldra, sem eru ekki með lögheimili barns skráð hjá sér, um aðgang að Heilsuveru barna sinna stóraukist.

„Það var non-stop. Það voru fleiri, fleiri beiðnir daglega. Og þetta var auðvitað allt handvirkt, svo það var mikil vinna,“ segir Guðrún Auður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.