Innlent

Þjálfun flugmanna að hefjast á fyrstu rafmagnsflugvél Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rafmagnsflugvélin TF-KWH dregin út úr flugskýli Geirfugls í Fluggörðum síðdegis. Frumkvöðlarnir Friðrik Pálsson og Matthías Sveinbjörnsson draga vélina ásamt sænska flugkennaranum Rickard Carlsson, sem heldur um skrúfuna.
Rafmagnsflugvélin TF-KWH dregin út úr flugskýli Geirfugls í Fluggörðum síðdegis. Frumkvöðlarnir Friðrik Pálsson og Matthías Sveinbjörnsson draga vélina ásamt sænska flugkennaranum Rickard Carlsson, sem heldur um skrúfuna. Einar Árnason

Fyrsta rafmagnsflugvél Íslands er komin með flughæfisskírteini og hefst þjálfun flugmanna á næstu dögum. Flugvélin var dregin út úr flugskýli á Reykjavíkurflugvelli síðdegis en stefnt er að því að æfinga- og reynsluflug verði frá flugvellinum á Hellu á Rangárvöllum.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir af flugvélinni á Reykjavíkurflugvelli en hálft ár er frá því hún kom með skipi til landsins, ósamansett í vagni. Núna er hún loksins orðin flughæf.

Þeir Friðrik Pálsson, hótelstjóri á Rangá, og Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, höfðu frumkvæði að því vélin var keypt en þeir hafa síðan fengið til liðs við sig sterka bakhjarla. Félagið Rafmagnsflug ehf., sem stofnað var um verkefnið, flutti vélina til landsins með það að markmiði að taka frumkvæði í orkuskiptum í flugi, þjálfa starfsfólk í þessari nýju tækni og kynna hana fyrir landsmönnum.

Þeir Friðrik Pálsson og Matthías Sveinbjörnsson stóðu fyrir því að fyrsta rafmagnsflugvélin var keypt til landsins. Hún er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel.KMU

„Þetta er fyrsta skráða íslenska flugvélin sem gengur eingöngu fyrir rafmagni,“ segir Matthías. Búið sé að þjálfa flugvirkja í að sinna rafmagnsflugvélum.

„Og nú er bara næsta skref að fara að þjálfa flugmenn og svo getum við farið að leyfa fólki að prófa,“ segir Matthías.

Í fréttatilkynningu segja aðstandendur verkefnisins að Ísland sé í einstakri stöðu til þess að vera í fararbroddi í heiminum hvað orkuskipti í flugi varðar vegna stuttra flugleiða innanlands, góðs aðgengis að umhverfisvænni raforku, auk þess sem lega landsins milli Evrópu og Norður-Ameríku geti til framtíðar skapað margvísleg tækifæri þegar komi að orkuskiptum í millilandaflugi.

Friðrik Pálsson tekur undir þá fullyrðingu að rafvæðing flugsins marki ákveðin þáttaskil.

„Og meira en svo. Þegar rafmagnsbílarnir voru að byrja á sínum tíma þá voru margir sem ekki höfðu trú á því. Síðan hefur orðið algjör bylting í hugsunarhætti.

Mjög margir tala um það í dag að við eigum eftir að sjá að flugið verði umhverfisvænsti ferðamátinn. Og þá tökum við líka mið af því að það verði umhverfisvænna en rafmagnsbílar,“ segir Friðrik.

Nöfn helstu bakhjarla verkefnisins eru merkt á flugvélinni. Í þeim hópi eru nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins sem og helstu flugskólar, en vélin er einkum ætluð til flugkennslu.KMU

Sænskur flugkennari, Rickard Carlsson, kom til landsins í dag til að kenna fjórum íslenskum flugkennurum á vélina.

„Þetta er ekki bara umhverfisvænt. Þetta er líka ódýrara. Þetta er einfaldara í rekstri. Þetta er hljóðlátt.

Það er svo margt sem fylgir þessu og algerlega skref sem við verðum að taka og reyna að flýta okkur eins hratt í þá átt að það verði raunveruleg orkuskipti í flugi,“ segir Matthías.

Í fréttatilkynningu segir að fyrst um sinn sé raunhæft að horfa til orkuskipta minni flugvéla og því næst í farþegaflugi innanlands. Til þess að gera orkuskipti möguleg sé samstarf lykilaðila mikilvægt, svo sem flugfélaga, flugvalla og orkufyrirtækja. En hvenær má ætla að farþegaflug innanlands verði orðið rafvætt?

„Það eru aðilar sem eru að framleiða vélar núna sem eru nokkurn veginn fullvissir um það að í byrjun árs 2026 þá verði nítján sæta flugvélar farnar að fljúga, bæði hér innanlands á Íslandi þessvegna, og víða í Evrópu,“ svarar Friðrik.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Fyrsta rafmagnsflugvélin í sögu íslensks flugs komin til landsins

Fyrsta rafmagnsflugvél Íslendinga kom til landsins með skipi í dag, innpökkuð í vagni. Þessari litlu tveggja sæta flugvél er ætlað að kynna Íslendingum rafvæðingu flugsins og er vonast til að hún verði komin í flugkennslu með vorinu.

Flugvélin sem gæti orðið sú fyrsta rafknúna hjá Icelandair

Ráðamenn Icelandair telja að vetnis- og rafmagnsflugvélar geti orðið raunhæfur kostur í innanlandsfluginu á fáum árum og hafa skrifað undir tvær viljayfirlýsingar við erlend fyrirtæki með það að markmiði að verða á meðal fyrstu flugfélaga heims til að gera innanlandsflug kolefnislaust.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×