„Bayern München var á eftir henni fyrir tveimur árum og þeir vildu fá hana til að spila með 19 ára liðinu. En eftir góðan fund þá töldum við það ekki vera það skref sem við töldum vera best fyrir hana þannig það var slegið af borðinu,“ sagði markmannsþjálfarinn Þorsteinn Magnússon í samtali við Stöð 2 í dag.
„Bianca, sem er svona „sports director“ þarna, hún bara elskar hana og var að fylgjast með henni og hringja í mann og spurjast fyrir um hana einu sinni í mánuði liggur við. Þannig að þetta kemur ekkert á óvart.“
Hin 18 ára gamla Cecilía Rán er hluti af íslenska landsliðshópnum sem mætir til leiks á EM kvenna í knattpyrnu þann 10. júlí. Hún gekk í raðir Bayern í janúar á þessu ári, en þá á láni frá enska félaginu Everton. Áður hafði hún verið á láni hjá Örebro í Svíþjóð eftir að hafa spilað frábærlega með Fylki hér á landi. Þorsteinn þjálfaði Cecilíu fyrst þegar hún var mjög ung, en hann segist fljótlega hafa séð hvað í henni bjó.
„Það var eiginlega það fyrsta sem ég horfði á var stærðin. Fyrstu tvo mánuðina gerði maður sér grein fyrir því hvað hún gæti orðið og þá varð ég að setjast niður og byrja að skipuleggja hvernig við myndum þjálfa hana af því að það er mjög erfitt að þjálfa svona háa markmenn.“
„En sem betur fer þá var hún að bregðast vel við öllu og tók þetta all-in. Það skipti ekki máli hvort það var laugardagur eða mánudagur, eða hvort að það var sól eða rigning eða snjókoma. Við vorum úti fjóra til sex daga vikunnar. Metnaðurinn var mikill og framfarirnar ótrúlega hraðar.“
Cecilía á að baki 24 leiki með yngri landsliðum Íslands og átta með A-landsliðinu. Aðspurður að því hvort Cecilía sé framtíðarmarkvörður íslenska landsliðsins var Þorsteinn ekki lengi að svara.
„Já,“ sagði Þorsteinn að lokum, viss í sinni sök.