Fótbolti

Eigendur Man City eignast ellefta fótboltafélagið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýir eigendur fögnuðu með gamla eigandanum á Stadio Renzo Barbera leikvanginum í Palermo.
Nýir eigendur fögnuðu með gamla eigandanum á Stadio Renzo Barbera leikvanginum í Palermo. Instagram/@palermofficial

City Football Group frá Abú Dabí, sem á meðal annars Englandsmeistaralið Manchester City, heldur áfram að safna að sér fótboltafélögum út um allan heim.

Nú síðast er fjárfestingahópurinn að eignast meirihluta í ítalska knattspyrnuliðinu Palermo frá Sikiley.

Palermo er eins og er í ítölsku b-deildinni en þetta er fornfrægt félag og það sjötta elsta á Ítalíu.

Eigandaskiptin voru staðfest á blaðamannafundi í Palermo í dag þar sem mættir voru Ferran Soriano frá Manchester City og Dario Mirri, fyrrum aðaleigandi Palmero. Mirri heldur tuttugu prósent eigandahlut í félaginu og verður áfram forseti.

„Markmið okkar á næstu árum er að koma félaginu upp í Seríu A. Það er metnaðarfullt en þetta félag þarf að vera í Seríu A og það er ekki auðvelt að komast þangað. Við þurfum að leggja mikið á okkur en félagið er nú komið inn í okkar fjölskyldu,“ sagði Ferran Soriano, æðsti maður í framkvæmdastjórn Manchester City.

Palermo er sögufrægt félag og hefur sterka og skýra ímynd. Við munum vinna saman með Dario Mirri og halda áfram hans frábæra starfi með það markmið að stækka félagið. Við erum mjög ánægður að City Football Group sé nú komið inn á ítalska fótboltamarkaðinn.

Það eru ekki allir sáttir eins og þessi stuðningsmaður Palermo sem er talað um hér fyrir neðan.

CFG á nú ellefu félög því auk Palermo og Manchester City þá á hópurinn einnig New York City FC frá Bandaríkjunum, Melbourne City frá Ástralíu, Yokohama F. Marinos frá Japan, Montevideo City Torque frá Úrúgvæ, Girona á Spáni, Sichuan Jiuniu frá Kína, Mumbai City frá Indlandi, Lommel SK frá Belgíu og Troyes í Frakklandi.

Sikileyjarfélagið fór í gjaldþrot árið 2019 og datt þá alla leið niður í D-deildina. Liðið hefur nú komið sé upp um tvær deildir á síðustu árum og komst upp í b-deildina með sigri í umspilsleik í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×