Fótbolti

Cecilía Rán skrifar undir hjá Bayern til 2026

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cecilía Rán verður hjá Bayern til 2026.
Cecilía Rán verður hjá Bayern til 2026. Twitter@FCBfrauen

Markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur skrifað undir fjögurra ára samning hjá þýska stórliðinu Bayern München. Hún var á láni hjá félaginu á síðari hluta síðasta tímabils en er nú samningsbundin til ársins 2026.

Hin 18 ára gamla Cecilía Rán er hluti af íslenska landsliðshópnum sem mætir til leiks á EM kvenna í fótbolta þann 10. júlí. Mótið hefst raunar 6. júlí en Ísland leikur í D-riðli og mætir því ekki til leiks fyrr en nokkrum dögum síðar. 

Cecilía Rán gekk í raðir Bayern í janúar en þá á láni frá enska félaginu Everton. Áður hafði hún verið á láni hjá KIF Örebro í Svíþjóð eftir að hafa spilað frábærlega með Fylki hér á landi. Rétt í þessu staðfesti Bayern svo að markvörðurinn efnilegi hefði skrifað undir fjögurra ára samning við félagið. 

„Ég er mjög þakklát fyrir að fá tækifæri til að vera hluti af jafn stóru félagi og Bayern er. Lengd samningsins sýnir trúna sem félagið hefur á mér og það gleður mig mjög,“ sagði Cecilía Rán við vefsíðu Bayern eftir undirskriftina.

„Aðeins 18 ára en Cecilía Rán er samt ein af efnilegustu markvörður heims. Hún hefur sýnt og sannað hvað hún getur á undanförnum mánuðum. Cecilíu Rán leið mjög vel í München frá fyrsta degi og við erum í skýjunum að hún verði áfram hjá Bayern,“ sagði Bianca Rech, íþróttastjóri kvennaliðs félagsins.

Bayern er mikið Íslendingalið þessa dagana en ásamt Cecilíu Rán eru þær Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir samningsbundnar liðinu. 


Tengdar fréttir

Amanda og Cecilía á lista Goal yfir stjörnur framtíðarinnar

Landsliðskonurnar Amanda Andradóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir eru báðar á lista vefmiðilsins Goal yfir stjörnur framtíðarinnar, en miðillinn tók saman lista yfir stjörnur framtíðarinnar sem vert er að fylgjast með á EM í sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.