Innlent

Töluvert af líkamsárásum yfir helgina og vopn notuð í einhverjum tilfellum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Lögregla var meðal annars kölluð út að skemmtistað við Lækjargötu vegna stórfelldrar líkamsárásar.
Lögregla var meðal annars kölluð út að skemmtistað við Lækjargötu vegna stórfelldrar líkamsárásar. Mynd/Aðsend

Þrjár stórfelldar líkamsárásir áttu sér stað í höfuðborginni á aðfaranótt sunnudags. Mikið álag var hjá lögreglunni um helgina þar sem hátt í tvö hundruð mál voru skráð.

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á aðfaranótt sunnudags en alls voru 87 mál skráð í dagbók lögreglu. Þar standa upp úr þó nokkrar líkamsárásir að sögn Þóru Jónasdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Frá fimm [á laugardagskvöld] til fimm í [gær]nótt þá var tilkynnt um tíu líkamsárásir víðsvegar reyndar um borgina, þetta tengist ekki aðeins miðbænum, þannig það hefur verið erill hjá lögreglunni,“ segir Þóra.

Af þeim líkamsárásum voru þrjár flokkaðar sem stórfelldar, þar af tvær í Hlíðunum og ein í miðbænum, við skemmtistaðinn Auto við Lækjargötu. Alls voru fjórir handteknir. Mismiklir áverkar voru á fórnarlömbum árásanna og á lögregla eftir að fá frekari upplýsingar í nokkrum tilfellum.

„Í einhverjum tilfellum voru einhvers konar vopn notuð og það er hérna ein sem er stórfelld þar sem aðili var fluttur á slysadeild,“ segir Þóra.

Á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags voru sömuleiðis þó nokkur mál skráð í dagbók lögreglu, alls 77. Þar af voru tvær líkamsárásir skráðar, ein í Hlíðunum og ein í miðbænum. Aðspurð um hvort þetta séu sérstaklega mörg mál þegar litið er til helgarinnar í heild sinni segir hún svo vera.

„Þetta er svona töluvert af líkamsárásum má segja yfir helgina, já,“ segir Þóra.

Neyðarlínan, dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóri, í samstarfi við lögregluna á landsvísu, fóru í síðustu viku af stað með verkefnið Góða skemmtun, þar sem almenningur er hvattur til að stuðla að ofbeldislausu skemmtanalífi. Segja má að erillinn um helgina sýni fram á mikilvægi þess verkefnis, ekki síst nú þegar Covid er að baki.

Rætt var við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, um verkefnið í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudag en innslagið má finna hér fyrir neðan.

 Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.