Erlent

Dóm­stóll í Pól­landi bannar „svæði án hin­segin fólks“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá gleðigöngu á hinsegin dögum í Varsjá í síðustu viku. Hinsegin fólk í Póllandi hefur átt undir högg að sækja síðustu ár.
Frá gleðigöngu á hinsegin dögum í Varsjá í síðustu viku. Hinsegin fólk í Póllandi hefur átt undir högg að sækja síðustu ár. Getty

Æðsti áfrýjunardómstóll Póllands hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjögur svokölluð „svæði án hinsegin fólks“ (e. LGBT-free zones) séu ólögleg og skuli afnema. Baráttufólk fagnar niðurstöðunni sem sigri mannréttinda og lýðræðis.

Staða hinsegin fólks í Póllandi hefur versnað síðustu mánuði, að sögn baráttusamtaka þar í landi. Þessi niðurstaða er því kærkomin fyrir hinsegin samfélag landsins. 

Nokkur sveitarfélög í Póllandi samþykktu árið 2019 ályktanir sem þau sögðu „laus við hugmyndafræði hinsegin samfélagsins“. Innan Póllands, hvar yfirgnæfandi meirihluti íbúa er kaþólskur, hefur sú skoðun verið viðtekin að réttindi hinsegin fólk vegi að kristnum gildum. 

Svonefnd „svæði án hinsegin fólks“ miðuðu að því að banna það sem sveitarfélög kölluðu upphafningu samkynhneigðar, sérstaklega innan skóla. Þessar samþykktir hrintu af stað atburðarrás sem endaði með því að Framkvæmdarstjórn ESB lýsti því yfir að svæðin gætu gengið í berhögg við lög Evrópusambandsins sem kveða á um að engum megi mismuna á grundvelli kynhneigðar.

Látið var reyna á lögmæti svæðanna fyrir lægri dómstólum þar sem níu slík svæði voru bönnuð en mál fjögurra svæða rötuðu til æðsta áfrýjunardómstóls sem kvað endanlega á um ólögmæti þeirra í dag.

„Dómurinn er stór sigur fyrir lýðræðið, mannréttindi og mannvirðingu“ skrifa samtök Póllands gegn hómófóbíu á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir

Meta hvort ungversk lög gegn samkynhneigð standist Evrópulög

Evrópusambandið hefur varað Ungverjaland og Pólland við því að þau gætu sætt refsiaðgeðrum ef ríkin halda áfram að brjóta gegn lýðræðislegum venjum. Ný lög sem voru samþykkt í Ungverjalandi sem banna að ungmenni séu frædd um samkynhneigð eru sérstaklega til skoðunar innan sambandsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×