Erlent

Vaktin: NATO hafi á­hyggju­r yfir tengslum Kínverja og Rússa

Hólmfríður Gísladóttir, Magnús Jochum Pálsson og Ólafur Björn Sverrisson skrifa
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á leiðtogafundi í Madríd í dag að bandalagið liti ekki á Kínverja sem andstæðinga sína en þau væru áhyggjufull yfir sterkum tengslum milli Kínverja og Rússa.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á leiðtogafundi í Madríd í dag að bandalagið liti ekki á Kínverja sem andstæðinga sína en þau væru áhyggjufull yfir sterkum tengslum milli Kínverja og Rússa. AP Photo/Bernat Armangue

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir bandalagið ekki líta á Kínverja sem andstæðinga sína en þau hafi áhyggjur af sterkum tengslum Rússa og Kínverja og því að Kínverjar dreifi fölskum áróðri um bæði NATO og Vesturlönd.

Dmitry Peskov, blaðamannafulltrúi Pútín, sagði á fjarfundi með blaðamönnum í morgun að hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu væru á áætlun og að þeir myndu ná markmiðum sínum. Peskov sagði Rússa hins vegar myndu láta af árásum ef stjórnvöld í Kænugarði gæfust upp og hermenn landsins legðu niður vopn.

„Úkraínska hliðin getur stoppað þetta allt fyrir dagslok,“ hefur AFP eftir Peskov. „Það er nauðsynlegt að skipa sveitum þjóðernissinna að leggja niður vopn.“

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála fram eftir degi.

Helstu vendingar:

  • Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir bandalagið ekki líta á Kínverja sem andstæðinga en þau hafi áhyggjur af sterkum tengslum Rússa og Kínverja og því að Kínverjar dreifi fölskum áróðri um bæði NATO og Vesturlönd. 

  • Tuttugu og eins er enn saknað eftir árás Rússa á verslunarmiðstöð í Kremenchuk í gær. Rússar segja miðstöðina hafa verið yfirgefna en eldur hafi kviknað í henni þegar þeir sprengdu vopnageymslu við hlið byggingarinnar.

    Úkraínumenn segja Rússa hins vegar hafa gert árás á verslunarmiðstöðina sjálfa og að um þúsund manns hafi verið í byggingunni þegar árásin átti sér stað. Að minnsta kosti 18 létust og um 60 særðust.

  • Björgunaraðgerðir standa enn yfir í verslunarmiðstöðinni í Kremenchuk.
  • Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur kallað árásina eina mestu hryðjuverkaárásina í sögu Evrópu. Leiðtogar G7 segja árásina stríðsglæp.
  • Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, segir Rússa hafa brotið allar reglur og alla sáttmála og að samskiptin við ríkið séu ekki á leið aftur í sama horf og fyrir stríð í langan, langan tíma.
  • Breska varnarmálaráðuneytið segir herafla Rússa í Donbas vera grisjóttan, sem grafi undan getu hans til að sækja fram. Ástandið sé ekki gæfulegt til lengri tíma litið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×