Erlent

Skapari græn­lenska fánans fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Rauði liturinn heitir Aappalaartoq og er notaður bæði í grænlenska og danska fánanum.
Rauði liturinn heitir Aappalaartoq og er notaður bæði í grænlenska og danska fánanum. Getty

Grænlenski listamaðurinn og þingmaðurinn fyrrverandi, Thue Christiansen, er látinn, 82 ára að aldri. Christiansen hannaði grænlenska fánann sem samþykktur var árið 1985.

Christiansen lést á heimili sínu í Hals á Jótlandi í Danmörku á sunnudaginn. Í tilkynningu frá fjölskyldu hans segir að hann hafi látist af völdum hjartasjúkdóms.

Christiansen var menntaður kennari og var kjörinn á grænlenska þingið árið 1979. Sem listamaður vann hann með myndlist og hannaði ýmis vörumerki og fleiri listaverk, að því er segir í frétt Sermitsiaq.AG.

Christiansen rifjaði upp í tilefni af áttræðisafmæli sínu árið 2020 að það hafi verið ákveðið árið 1972 að Grænland skyldi fá sinn eigin fána. Síðar hafi verið haldin hönnunarsamkeppni þar sem tillaga Christiansen hlaut náð fyrir augum sérstakrar fánanefndar á vegum grænlensku heimastjórnarinnar.

Á vef Norðurlandaráðs kemur fram að grænlenski fáninn hafi verið samþykktur 21. júní 1985 og heitir Erfalasorput sem þýðir „fáninn okkar“.

„Rauði liturinn heitir Aappalaartoq og er notaður bæði í grænlenska og danska fánanum. Rauði og hvíti liturinn tákna aldalöng tengslin við Danmörku. Hringurinn í miðju fánans táknar sólina sem hnígur til viðar við sjóndeildarhringinn og ljósið og hlýjuna sem kemur aftur um miðsumar. Það að grænlenski fáninn er ekki með krossi ber merki um pólitískt frelsi Grænland og samkenndina með öðrum inúítaþjóðum á norðurslóðum,“ segir á vef Norðurlandaráðs.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.