Erlent

Nýtt bóluefni gefur vonir um útrýmingu malaríu fyrir árið 2040

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bóluefnið verður öflug viðbót við vonpnabúr heimsins gegn malaríu en hingað til hefur ein helsta vörnin gegn sjúkdómnum verið flugnanet.
Bóluefnið verður öflug viðbót við vonpnabúr heimsins gegn malaríu en hingað til hefur ein helsta vörnin gegn sjúkdómnum verið flugnanet. epa/Legnan Koula

Miklar vonir eru bundnar við nýtt bóluefni gegn malaríu en sjúkdómurinn er algengasta dánarorsök fimm ára og yngri í Afríku. 600 þúsund manns létust úr malaríu í Afríku árið 2020 en nýtt bóluefni er talið geta lækkað dánartíðnina um allt að 75 prósent.

Bóluefnið, sem kallast R21, sýndi 77 prósenta virkni í prófunum í Burkina Faso og talið er að rannsókn sem stendur yfir í fjórum Afríkuríkjum muni skila svipuðum niðurstöðum.

R21 var þróað við Jenner Institute við Oxford-háskóla, sömu stofnun og þróaði bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19. Það verður framleitt af The Serum Institute of India, sem stefnir á að afhenda 200 milljón skammta árlega en það er sá fjöldi sem þarf til að vinna sigur á malaríu.

Árið 2020 greindust um það bil 228 milljónir með sjúkdóminn en það jafngildir 95 prósentum af öllum tilvikum á heimsvísu.

Adrian Hill, forstjóri Jenner Institute, telur að R21 muni fækka dauðsföllum af völdum malaríu um 75 prósent fyrir árið 2030. „Með góðum meðvind gæti malaría farið úr því að verða stórkostlegt banamein í það að verða minniháttar orsök dauðsfalla árið 2030,“ segir hann.

Þá telur hann að mögulega verði hægt að útrýma sjúkdómnum fyrir árið 2040.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.