Fótbolti

Cloé Eyja á leið á stórmót með kanadíska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cloé Eyja Lacasse fagnar marki fyrir Benfica í Meistaradeildinni á síðasta tímabili.
Cloé Eyja Lacasse fagnar marki fyrir Benfica í Meistaradeildinni á síðasta tímabili. EPA-EFE/Adam Ihse

Kanadíska-íslenska knattspyrnukonan Cloé Eyja Lacasse er á leiðinni á stórmót eins og íslensku landsliðskonurnar en þó ekki með íslenska landsliðinu.

Lacasse hefur verið valin í 22 manna hóp kanadíska landsliðsins fyrir Concacaf keppnina þar sem keppa lið frá Norður- og Mið-Ameríku.

Concacaf keppnin í ár, sú ellefta í sögunni, fer fram í Mexíkó frá 4. til 18. júlí. Kanada er í riðli með Kosta Ríka, Panama og Trínidad og Tóbagó.

Kandaíska landsliðið er ríkjandi Ólympíumeistari frá því í Tókýó í fyrra en liðið vann síðast Concacaf keppnina árið 2010. Í síðustu keppni fór kanadíska landsliðið alla leið í úrslitaleikinn en tapaði þar fyrir Bandaríkjunum.

Cloé Eyja er ein af sjö framherjum í hópnum en frægastar af þeim eru hin 39 ára gamla Christine Sinclair sem hefur skorað 188 mörk fyrir landsliðið, hin 29 ára gamla Adriana Leon sem var markahæst í síðustu Concacaf keppni árið 2018 og svo hin 21 árs gamla Jordyn Huitema sem yfirgaf nýverið franska liðið Paris Saint-Germain.

Það er því mikil samkeppni fyrir Cloé Eyju sem á enn eftir að skora eftir sex landsleiki fyrir Kanada.

Cloé Eyja hefur farið á kostum með portúgalska liðinu Benfica síðan hún yfirgaf ÍBV árið 2019 og er alls með 67 mörk í 88 leikjum fyrir félagið. Cloé skoraði 54 mörk í 79 leikjum í efstu deild með ÍBV og varð bikarmeistari með liðinu árið 2017.

Hún lék með ÍBV frá 2015 til 2019 og fékk íslenskan ríkisborgararétt í júní 2019. KSÍ fékk ekki keppnisleyfi fyrir hana þegar velja átti hana í landsliðið og á endanum vann hún sér í staðinn sæti í kandadíska landsliðinu. Cloé er nú á leiðinni á sitt fyrsta stórmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×