Innlent

Sendi borgarstjóra Oslóar samúðarkveðjur

Kjartan Kjartansson skrifar
Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri Reykjavíkur.
Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri, sendi Marianne Borgen, borgarstjóra Oslóar og íbúum borgarinnar samúðarkveðjur vegna skotárásinnar þar í gær. Tveir létust í árásinni sem hófst fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal hinsegin fólks.

Í kveðju sinni sagði Einar, sem gegnir embætti borgarstjóra í fjarveru Dags B. Eggertssonar, að nú sem aldrei fyrr þyrfti að standa vörð um þau grunngildi sem samfélög okkar byggi á.

„Við látum hvergi bugast í baráttunni gegn ótta og hatri og upphefjum kærleika og umburðarlyndi,“ sagði í kveðjunni.

Ítrekaði starfandi borgarstjóri að hugur og hjörtu Reykvíkinga væru nú sérstaklega hjá þeim sem syrgðu ástvini, þeim særðu og hinsegin samfélaginu sem hafi orðið fyrir enn einn árásinni.

Tveir karlmenn voru skotnir til bana í árásinni sem er rannsökuð sem hryðjuverk. Rúmlega tuttugu særðust, þar af tíu alvarlega, en enginn er talinn í lífshættu.

Fjörutíu og tveggja ára gamall karlmaður er í haldi lögreglu. Hann hefur neita að gefa lögreglu skýrslu. Lögregla og leyniþjónusta Noregs telur að maðurinn hafi verið í sambandi við öfgatrúaða íslamista.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.