Fótbolti

Sau­tján dagar í EM: „Spilaði á þver­flautu frá sex ára aldri út fyrsta árið í Verzló“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Agla María lærði á þverflautu á sínum yngri árum.
Agla María lærði á þverflautu á sínum yngri árum. Vísir/Vilhelm

Vísir telur niður í Evrópumót kvenna í fótbolta sem fram fer í Englandi í júlí og kynnir leikmenn íslenska landsliðsins. Næst í röðinni er hin lunkna Agla María Albertsdóttir sem leikur með BK Häcken í Svíþjóð.

Hin 22 ára gamla Agla María hafði verið með betri leikmönnum efstu deildar hér á landi í dágóðan tíma þrátt fyrir ungan aldur áður en hún lét verða af því að fara í atvinnumennsku. 

Agla María er á leið á sitt annað Evrópumót en hún spilaði stóra rullu á EM 2017. Byrjaði hún tvo af þremur leikjum liðsins og kom af bekknum í þeim þriðja. 

Alls hefur þessi skemmtilegi vængmaður spilað 46 A-landsleiki og skorað þrjú mörk. Áður en hún varð máttarstólpi í sterku liði Breiðabliks lék hún með Val og Stjörnunni í efstu deild hér á landi. 

Hefur hún spilað 148 leiki og skorað 75 mörk í efstu deild, bikar- og Evrópukeppni fyrir liðin þrjú ásamt því að vinna fjölda titla. Nú síðast bikarmeistaratitil með Blikum sumarið 2021.

Agla María í leik með íslenska landsliðinu.Vísir/Hulda Margrét

Fyrsti meistaraflokksleikur? Í Lengjubikarnum árið 2015.

Hver hefur kennt þér mest í fótbolta? Ég haft nokkra mjög góða þjálfara í gegnum tíðina sem hafa hjálpað mér mjög mikið. Ég ætla að gefa pabba og Lárusi Grétarssyni þetta.

Lag sem kemur þér í gírinn fyrir leik? Unstoppable og Girl on Fire.

Mætir einhver af fjölskyldu/vinum til að styðja þig á EM? Mamma og pabbi verða í stúkunni og síðan vonast ég til þess að Aron (Þórður Albertsson) bróðir minn nái að skjótast út á að minnsta kosti einn leik en hann spilar með KR í Bestu deildinni og á því erfitt með að komast.

Hvaða námi eða vinnu hefur þú sinnt (fyrir utan fótbolta)? Ég útskrifaðist af hagfræði-braut frá Verzlunarskólanum árið 2018. Þaðan fór ég beint í viðskiptafræði í HR og lauk því námi 2021 og er núna hálfnuð með meistaragráðu í fjármálum frá HÍ. Ég hef unnið á ótrúlegustu stöðum en síðastliðin fjögur sumur hef ég unnið hjá Árvakri og sinnt ýmsum störfum þar samhliða fótboltanum.

Í hvernig skóm spilarðu? Nike Mercurial Vapor.

Uppáhalds lið í enska? Manchester United.

Uppáhalds tölvuleikur? Spila ekki tölvuleiki.

Uppáhalds matur? Í augnablikinu tacos en fer allt eftir því í hvernig stuði ég er.

Fyndnust í landsliðinu? Cessa og Sveindís deila þessu.

Gáfuðust í landsliðinu? Margar eldklárar í landsliðinu.

Óstundvísust í landsliðinu? Elín Metta er stundum tæp á tíma.

Hvaða lið vinnur EM (ef ekki Ísland)? Spánverjar eru líklegar til stórra hluta á mótinu

Hvað er skemmtilegast að gera milli æfinga og leikja í landsliðsferðum? Ef við erum á áhugaverðum stöðum er klárlega lang skemmtilegast að sjá nýja staði og skoða nærumhverfið.

Besti andstæðingur/leiðinlegasti andstæðingur? Besti varnarmaður sem ég hef mætt er líklegast Wendie Renard (Frakkland) en hef einnig spilað á móti Lieke Martens frá Hollandi sem er virkilega hæfileikaríkur vængmaður.

Átrúnaðargoð í æsku? Cristiano Ronaldo.

Nefndu eina staðreynd um þig sem fáir vita? Spilaði á þverflautu frá sex ára aldri út fyrsta árið í Verzló.

Agla María í Meistaradeildarleik með Blikum.Vísir/Hulda Margrét

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×