Erlent

Valda­mesti maður Pól­lands hættir í ríkis­stjórninni

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 73 ára Kaczynski hefur átt sæti á pólska þinginu frá árinu 1997 og var sjálfur forsætisráðherra Póllands á árunum 2006 til 2007.
Hinn 73 ára Kaczynski hefur átt sæti á pólska þinginu frá árinu 1997 og var sjálfur forsætisráðherra Póllands á árunum 2006 til 2007. EPA

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi pólska stjórnarflokksins Lög og réttlæti, hefur ákveðið að segja af sér sem aðstoðarforsætisráðherra landsins til að búa flokkinn undir komandi þingkosningar sem fram fara á næsta ári.

Kaczynski er almennt talinn valdamesti maður Póllands og hefur mest að segja um stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar. Hann segir nú að hann hafi upphaflega hugsað sér að hætta fyrr í embætti aðstoðarforsætisráðherra, en að innrás Rússa í Úkraínu hafi fengið hann til að fresta því.

Varnarmálaráðherrann Mariusz Blaszczak mun taka við embætti aðstoðarforsætisráðherra, en embættið snýr að stórum hluta um að sinna öryggis- og varnarpólitík.

„Þetta er mjög eðlileg ákvörðun. Það stendur yfir stríð og hann er varnarmálaráðherrann. Svo með tilliti til stöðunnar sem við erum í þá er það kostur að vera með þessa tengingu,“ segir Kaczynski um skipun Blaszczak í embætti aðstoðarforsætisráðherra.

Kaczynski hefur stýrt íhaldsflokknum Lögum og réttlæti frá árinu 2003, en flokkurinn hefur verið við völd í landinu frá árinu 2015. Kaczynski sjálfur hefur á þeim tíma bæði setið í og utan sjálfrar ríkisstjórnarinnar.

Hinn 73 ára Kaczynski hefur átt sæti á pólska þinginu frá árinu 1997 og var forsætisráðherra Póllands á árunum 2006 til 2007. Tvíburabróðir hans, Lech Kaczynski, var forseti Póllands á árunum 2005 til dauðadags 2010, en hann lést í flugslysi í vesturhluta Rússlands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.