Fótbolti

Lengjudeild kvenna: Botnliðin töpuðu bæði

Árni Jóhannsson skrifar
Leikmenn Tindastóls gátu fagnað í dag
Leikmenn Tindastóls gátu fagnað í dag

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild kvenna í dag og voru liðin sem verma botnsætin í eldlínunni. Skemmst er frá því að segja að þau töpuðu bæði og syrtir enn í álinn hjá þeim.

Í fyrri leik dagsins tók sameinað lið Fjarðabyggðar, Leiknis og Hattar á móti Haukum í Fjarðabyggðarhöllinni. Leikurinn endaði með sigri Austfirðinga 3-1 en vandræði Hauka hófust snemma en Viktoría Valdís Guðrúnardóttir, leikmaður Hauka, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og koma Austfirðingum yfir. Íris Ósk Ívarsdóttir tvöfaldaði forskot heimakvenna 11 mínútum fyrir hálfleik áður en Linli Tu innsiglaði sigurinn með sjöunda marki sínu á leiktíðinni. 

Haukar klóruðu í bakkann þegar Maria Fernanda Contreras Munoz skoraði á 72. mínútu en neistinn sem hefur vaknað við það mark slokknaði sjö mínútum síðar þegar Rakel Leósdóttir var rekin út af þegar hún fékk beint rautt spjald. Haukar sitja í næstneðsta sæti með þrjú stig  en liðið í neðsta sæti, Fjölnir, tapaði einni í dag fyrir Tindastól 0-2 á heimavelli. 

Tindastóll situr í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig og er tveimur stigum fyrir ofan sameinað lið Fjarðabyggðar, Leiknis og Hattar sem situr í því fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×