Innlent

Ferðaðist til Kaup­manna­hafnar til að skila orðu afa síns til drottningar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kjartan Þorbjörnsson, ljósmyndari, skilaði Dannebrogsorðunni sem afi hans, Gísli Konráðsson, hlaut 43 árum áður aftur til Danadrottningar.
Kjartan Þorbjörnsson, ljósmyndari, skilaði Dannebrogsorðunni sem afi hans, Gísli Konráðsson, hlaut 43 árum áður aftur til Danadrottningar. Samsett

Kjartan Þorbjörnsson, betur þekktur sem Golli, gerði sér sérstaka ferð, í tilefni 17. júní, frá Helsingborg til Kaupmannahafnar til að skila Dannebrogsorðunni sem afi hans, Gísli Konráðsson, hlaut 43 árum áður.

Gísli Konráðsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa til áratuga og danskur konsúll, hlaut Dannebrogsorðuna árið 1979 og tveimur árum síðar hlaut hann Fálkaorðuna. Samkvæmt reglum ber að skila báðum orðum eftir andlát orðuhafa. Það kom því hlut fjölskyldunnar að skila orðunum tveimur.

„Við fórum erfingjar hans á Bessastaði fyrir nokkuð mörgum árum síðan og gáfum úr dánarbúi part af Alþingishátíðarstellinu sem var til á heimilinu, frá Alþingishátíðinni 1930 og skiluðum þá fálkaorðunni í leiðinni,“ sagði Kjartan í símtali við blaðamann.

Ferðaðist með flugvél, ferju og reiðhjóli til að skila orðunni

Eftir að búið var að skila Fálkaorðunni tók Kjartan það að sér innan fjölskyldunnar að skila Dannebrogsorðunni næst þegar hann færi til Kaupmannahafnar.

„Svo hef ég bara ekki átt leið til Köben fyrr en ég var staddur núna í Helsingborg í Svíþjóð og skellti mér yfir á 17. júní til að skila þessu formlega,“ sagði Kjartan.

Til að komast frá Helsingborg á orðuskrifstofuna, sem er í gulu höllinni við Amalieborg, fyrir klukkan 16 þurfti Kjartan að taka lest, ferju og loks reiðhjól. Á skrifstofunni tóku á móti honum starfsmenn Margrétar Þórhildar Danadrottningar sem tóku við orðunni.

Tæpum 20 árum eftir andlát Gísla Konráðssonar og meira en 40 árum eftir orðuveitinguna komst Dannebrogsorðan því loks aftur í hendur drottningar. Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegt myndband af ferðalagi Golla til Kaupmannahafnar:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×