Fótbolti

Er á leið á HM með Ástralíu eftir að hafa fæðst í flótta­manna­búðum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Awer Mabil (til hægri) fagnar HM sætinu.
Awer Mabil (til hægri) fagnar HM sætinu. EPA-EFE/Noushad Thekkayil

Saga Ástralans Awer Mabil er nokkuð ólík flestum þeim sem munu taka þátt á HM í fótbolta sem fram fer í Katar undir lok þessa árs. Hinn 26 ára gamli Ástrali fæddist nefnilega í flóttamannabúðum í Malí í september árið 1995.

Mabil er samningsbundinn Midtjylland í Danmörku en lék með Kasımpaşa í Tyrklandi á láni síðasta vetur. Hann hefur leikið alls 28 A-landsleiki fyrir Ástralíu og var meðal þeirra sem mætti Perú í umspilinu um sæti á HM í Katar.

Vængmaðurinn var meðal þeirra sem tók vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni. Hann skoraði og eftir að Ástralía hafði tryggt sér sæti á fimmta heimsmeistaramótinu í röð þakkaði Mabil Ástralíu fyrir að taka við sér og fjölskyldu sinni þegar þau áttu engin önnur hús að vernda.

„Ég vissi að ég myndi skora. Það var eina leiðin til að sýna Ástralíu þakklæti mitt og fjölskyldu minnar,“ sagði Mabil eftir leik.

„Fjölskylda mín flúði Súdan vegna stríðsins, ég fæddist í kofa. Hótelherbergin sem við gistum í eru stærri en svæðið sem við fjölskyldan höfðum til umráða í flóttamannabúðunum. Ástralía tók við okkur og gaf fjölskyldu minni möguleika á að lifa eðlilegu lífi.“

Mabil vonast til að hafa lagt sitt á vogarskálarnar er varðar orðræðuna í kringum flóttamenn í Ástralíu.

„Vonandi hef ég haft áhrif á ástralskan fótbolta. Við erum að fara á HM, ég skoraði úr vítaspyrnu, við spiluðum allir okkar hlutverk í sigrinum. Vonandi spilaði krakkinn úr flóttamannabúðunum stórt hlutverk, þetta var mín leið til að þakka Ástralíu fyrir hönd fjölskyldu minnar,“ sagði Mabil að lokum.

Ástralía mun leika í D-riðli ásamt heimsmeisturum Frakklands, Danmörku og Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×