Fótbolti

Heimir Hallgrímsson á varamannabekk ÍBV

Atli Arason skrifar
Heimir Hallgrímsson á hliðarlínunni í Rostov í síðasta leik sínum sem landsliðsþjálfari Íslands, á HM 2018.
Heimir Hallgrímsson á hliðarlínunni í Rostov í síðasta leik sínum sem landsliðsþjálfari Íslands, á HM 2018. VÍSIR/VILHELM

Fyrrum landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson er mættur til Vestmannaeyja. Heimir er á varamannabekk ÍBV í leik liðsins gegn Víkingi sem nú stendur yfir.

Samkvæmt leikskýrslu er Heimir skráður sem liðstjóri ÍBV. Ekkert hefur fengið staðfest hvort Heimir sé kominn til að vera í Vestmannaeyjum eða hvort hann sé hreinlega í heimsókn en Heimir fagnaði 55 ára afmæli sínu síðasta föstudag. Heimir hefur í gegnum árið verið duglegur að hjálpa sínu uppeldisfélagi þegar hann er kallaður til.

Heimir rekur tannlæknastofu í Vestmannaeyjum en hann hefur verið án atvinnu í þjálfarabransanum síðan hann sagði skilið við Al-Arabi á síðasta ári. Hefur hann verið sagður taka við keflinu af Heimi Guðjónssyni hjá Val en neitað þeim sögusögnum og sagt að hann stefni á að þjálfa áfram erlendis.

Leikur ÍBV og Víkings er að sjálfsögðu sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport BD og í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×