Fótbolti

Sjáðu Hlín svara hraustlega fyrir sig í nótt eftir EM-valið

Sindri Sverrisson skrifar
Hlín Eiríksdóttir var hetja Piteå í sænsku miðnætursólinni.
Hlín Eiríksdóttir var hetja Piteå í sænsku miðnætursólinni. Skjáskot/Stöð 2 Sport

Hlín Eiríksdóttir er ein af þeim sem voru allra næst því að ná sæti í EM-hópi Íslands sem tilkynntur var síðasta laugardag en urðu að bíta í það súra epli að fá ekki sæti. Hún sendi landsliðsþjálfaranum skýr skilaboð með frammistöðu sinni í nótt.

Hlín nýtti frábærlega fyrsta tækifærið eftir valið á EM-hópnum, til að freista þess að sýna að hún ætti að fá að fara með til Englands í júlí.

Tækifærið nýtti hún í leik með Piteå gegn Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni, þar sem hún skoraði öll þrjú mörkin í 3-0 sigri. Mörkin og innilegan fögnuð Hlínar má sjá hér að neðan.

Klippa: Þrenna Hlínar í miðnætursólinni

Leikurinn var sérstakur því hann var leikinn fram yfir miðnætti í Svíþjóð og um svokallaðan miðnætursólarleik að ræða. Hlín var að sjálfsögðu valin í lið umferðarinnar í deildinni fyrir sína frammistöðu.

Þetta var næstsíðasti leikur Piteå áður en við tekur sumar- og EM-hlé í sænsku úrvalsdeildinni fram í miðjan ágúst.

Piteå komst með sigrinum upp fyrir Djurgården og var nafn Hlínar, eða Hålinar eins og liðsfélagarnir kalla hana, kyrjað um nóttina í búningsklefa Piteå. Liðið er nú í 8. sæti af 14 liðum, með 20 stig eftir 14 umferðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×