Innlent

Þrír mánuðir fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni

Árni Sæberg skrifar
Landsréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um einn mánuð.
Landsréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um einn mánuð. Vísir/Vilhelm

Karlmaður var í gær dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa kynferðislega áreitt konu í bíl hennar. 

Maðurinn var sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni með því að hafa teygt sig inn um glugga bifreiðar konunnar og strokið henni utanklæða eftir upphandlegg og læri og að hafa inni í bifreiðinni strokið henni utanklæða á hendur, bak, læri og mjaðmir og kysst hendur hennar, að því er segir í dómi Landsréttar.

Í niðurstöðukafla dómsins segir að framburður konunnar hafi verið metinn trúverðugur sem og að vitnisburður þriðja manns hafi verið talinn renna stoðum undir frásögn konunnar. Þá sýndi myndbandsupptaka úr öryggismyndavél konuna bægja sér frá tilraun mannsins til að klípa hana í rassinn þegar út úr bílnum var komið.

Konan krafðist 2,5 milljóna króna í miskabætur en Landsréttur dæmdi manninn til greiðslu aðeins hluta kröfunnar eða fjögur hundruð þúsund króna. Þá var honum gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins um ríflega 1,3 milljón króna. Í héraði hafði maðurinn verið dæmdur til greiðslu rúmlega 1,6 milljónar króna í málsvarnarlaun verjanda síns, þóknun réttargæslumanns og annan sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×