Fótbolti

Real Madrid staðfestir kaupin á Tchouameni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aurelien Tchouameni skrifaði undir sex ára samning við Real Madrid.
Aurelien Tchouameni skrifaði undir sex ára samning við Real Madrid. Christian Hofer/Getty Images

Franski miðjumaðurinn Aurelien Tchouameni hefur skrifað undir sex ára samning við spænska stórveldið Real Madrid.

Tchouameni gengur í raðir Madrídinga frá Monaco, en bæði Real Madrid og Monaco hafa greint frá félagsskiptunum á samfélagsmiðlum sínum. Hann verður formlega kynntur sem leikmaður Real Madrid á þriðjudaginn eftir að hann hefur gengið í gegnum læknisskoðun.

Þessi 22 ára miðjumaður lék 35 deildarleiki fyrir Monaco á síðustu leiktíð og skoraði í þeim þrjú mörk. Þá hefur hann leikið 11 leiki fyrir franska landsliðið, en hans fyrsti landsleikur var í september á síðasta ári.

Tchouameni var lengi vel orðaður við Liverpool, Manchester United og Paris Saint-Germain, ásamt Real Madrid. Áður höfðu ýmsir miðlar greint frá því að Tchouameni hafi náð samkomulagi við Liverpool.

Nú hefur það þó verið staðfest að leikmaðurinn mun leika í treyju Real Madrid næstu sex árin. Samkvæmt heimildum BBC greiða Madrídingar allt að 85 milljónir punda fyrir leikmanninn, þar af um 17 milljónir punda í árangurstengdar greiðslur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×