Ísak og félagar í U21-landsliðinu undirbúa sig fyrir gríðarlega mikilvægan leik við Kýpur sem fram fer á Víkingsvelli annað kvöld. Þá ræðst hvort þeir komist í umspil um sæti á EM.
Ísak kvaðst enn stefna á að spila leikinn en var skiljanlega mjög brugðið þegar hann fékk verk fyrir brjóstið á miðvikudagskvöld. Það er ekki síst vegna þess að blóðfaðir hans fékk hjartaáfall fyrr í sumar en Ísak fékk þær fréttir í aðdraganda leiks með Breiðabliki gegn ÍA sem hann skoraði svo tvö mörk í.
„Mér var svolítið brugðið“
„Staðan er bara mjög góð. Ég er búinn að fara í öll test sem ég þarf að fara í til að passa upp á að það gerist ekki neitt aftur. Ég er bara góður í dag, eins og er,“ sagði Ísak í Víkinni í hádeginu.
Hann var skoðaður í bak og fyrir af læknum en hefur ekki fundið fyrir þeim verkjum síðasta sólarhringinn sem hann fann fyrir á miðvikudagskvöld, í 3-1 sigrinum gegn Hvíta-Rússlandi:
„Þetta var svolítið óþægilegt. Ég fann fyrir verk í bringunni í byrjun seinni hálfleiks og svo var þetta þannig út kvöldið og aðeins um morguninn eftir. Þetta er farið núna og vonandi kemur þetta ekki aftur svo ég geti spilað leikinn á morgun.
Mér var svolítið brugðið, sérstaklega því þetta er nýbúið að gerast í fjölskyldunni. Blóðpabbi minn fékk hjartaáfall og er að „recovera“ núna. Það var eina ástæðan fyrir því að við fórum í öll þessi tékk, til að vera öruggir. En núna er ég bara góður. Ég þarf þó að byrja rólega og sjá hvernig bringan tekur við sér. Við tökum eitt skref í einu,“ segir Ísak.
„Það verða læti og við verðum að vera tilbúnir“
Eins og fyrr segir á Ísland fína möguleika á að komast í EM-umspil en til þess þarf liðið að vinna Kýpur og treysta á að Portúgal vinni Grikkland á sama tíma annað kvöld:
„Við vonum að Portúgal taki þetta en við einbeitum okkur bara að okkar leik því það er eini leikurinn sem við getum stjórnað. Við förum á fullu í þennan leik og vonandi fer hinn svo eins og við viljum fara.
Ég býst við hörkuleik. Ég held að Kýpverjarnir verði grjótharðir og komi af fullum krafti í pressu. Það verða læti og við verðum að vera tilbúnir í það en við munum gefa okkur alla í þetta og vonandi förum við með sigur heim,“ segir Ísak, spenntur fyrir möguleikanum á að komast í lokakeppni EM en það hefur íslenska U21-landsliðið tvívegis í sögunni afrekað:
„Ég held að það sé spenna í hópnum. Það er mjög stórt að komast á EM en við tökum bara einn leik í einu og svo kemur „hitt“ vonandi í kjölfarið á því.“
Leikur Íslands og Kýpur fer fram á Víkingsvelli og hefst á laugardagskvöld klukkan 19:15. Leikurinn verður í beinni textalýsingu á Vísi. Miðasala á leikinn er á tix.is.