Erlent

Nýtt lyf heftir vöxt krabba­meins­æxla

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Lyfið Enhertu lofar góðu í baráttunni við brjóstakrabbamein.
Lyfið Enhertu lofar góðu í baráttunni við brjóstakrabbamein. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Nýtt lyf við brjóstakrabbameini eykur líftíma sjúklinga um 23,9 mánuði á meðan hefðbundin lyfjameðferð gefur sjúklingum 16,8 mánuði. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um rannsókn sem kynnt var á dögunum á aðalfundi Félags klínískra krabbameinslækna í Bandaríkjunum.

Lyfið, trastuzumab deruxtecan, selt undir nafninu Enhertu, er sagt hefta vöxt á krabbameinsæxlum. Í meðferðarprófun sem framkvæmd var á 557 sjúklingum með meinvörp í brjóstum var tveimur þriðju hlutum sjúklinga gefið trastuzumab deruxtecan og einum þriðja hluta gert að gangast undir hefðbundna lyfjameðferð. Niðurstöður prófunarinnar leiddu í ljós að í þeim sjúklingum sem fengu trastuzumab deruxtecan stöðvaðist vöxtur æxla í tíu mánuði á móti þeim fimm mánuðum sem hefðbundin lyfjameðferð gaf af sér.

Umrætt lyf einblínir á HER2 prótein sem fyrirfinnst í fimmtán til tuttugu prósent brjóstakrabbameinssjúklinga en lyfið byggir á mótefni sem leitar uppi próteinið á yfirborði krabbameinsfrumna og drepur þær.

Dr. Halle Moore, yfirmaður brjóstakrabbameinslækninga hjá Cleveland Clinic segir meðferðarprófanir vanalega geta gefið sjúklingum nokkrar vikur til viðbótar, en það sé þó ekki sjálfsagt. Það er því sjaldséð að lyf auki lífslíkur með þessum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×