Í kærunni tilgreindi Róbert sérstaklega fimm greinar um sig sem birtar voru á vef Mannlífs og vildi einnig meina að miðillinn héldi úti stanslausum áróðri gegn sér fyrir tilstuðlan Halldórs Kristmannssonar, fyrrum samstarfsmanns Róberts. Í kærunni kemur fram að Halldór fjármagni miðilinn að einhverju leyti.
Óvönduð og bersýnilega röng umfjöllun
Róbert taldi að Reynir hafi brotið gegn siðareglum félagsins með óvandaðri og bersýnilega rangri umfjöllun um sig með fjárhagslegan ávinning að leiðarljósi.
Halldór hefur greitt Skrúðás ehf., fyrirtækinu sem Reynir á Mannlíf í gegnum, um þrjátíu milljónir króna fyrir textasmíð og aðstoð við textasmíð.
Reynir óskaði eftir því í gegnum lögmann að kærunni yrði vísað frá en til vara að kröfum Róberts verði hafnað.
Í andsvörum Reynis við kærunni segir að Halldór sé ekki fjárhagslegur bakhjarl Mannlífs en að hann sjálfur vinni þó að bók um Róbert Wessmann sem Halldór hefur kostað.
Vanhæfur til að fjalla um Róbert
Að mati siðanefndarinnar er Reynir vanhæfur til að fjalla um málefni Róberts þar sem hann hefur þegið greiðslur frá Halldóri. Telst umfjöllunin vera brot á 5. grein siðareglna sem fjallar um hagsmunaárekstra. Hagsmunaáreksturinn flokkast sem alvarlegur sem er næsthæsti mögulegi flokkur.
Trausti Hafsteinsson, fyrrum aðstoðarritstjóri Mannlífs, var einnig kærður en af gögnum málsins verður ekki séð að hann hafi þegið greiðslur frá Halldóri. Hann telst því ekki hafa brotið siðareglurnar.