Erlent

Van­traust á ráð­herra fellt og sænska stjórnin situr á­fram

Kjartan Kjartansson skrifar
Morgan Johansson, dómsmála- og innanríkisráðherra Svíþjóðar, slapp naumlega við vantraust í sænska þinginu.
Morgan Johansson, dómsmála- og innanríkisráðherra Svíþjóðar, slapp naumlega við vantraust í sænska þinginu. Vísir/EPA

Dómsmála- og innanríkisráðherra Svíþjóðar stóð af sér vantrauststillögu í sænska þinginu í dag. Magdalena Anderson forsætisráðherra hafði hótað því að ríkisstjórnin segði af sér ef vantrausti yrði lýst á ráðherrann.

Aðeins einu atkvæði munaði að vantrausti yrði lýst á Morgan Johansson, dómsmála- og innanríkisráðherra. Stjórnarandstaðan lagði fram vantrauststillöguna á hendur honum vegna fjölda skotárása í Svíþjóð að undanförnu.

Á endanum greiddu 174 þingmann atkvæði með vantrausti en 97 á móti. Sjötíu sátu hjá eða voru fjarverandi. Atkvæði 175 þingmanna þufti til þess að lýsa yfir vantrausti á Johansson.

Ebba Busch, leiðtogi Kristilegra demókrata, lýsti yfir vonbrigðum eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir. Sakaði hún Johannsson um að hafa brugðist í baráttunni gegn glæpagengjum, að því er kemur fram í frétt Aftonbladet.

Aðrir þingmenn voru gagnrýnir á tímasetningu vantrauststillögunnar, nú þegar stríð geisar í Úkraínu og umsókn Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu er til meðferðar.

„Það er stríð í gangi tveimur klukkustundum frá landamærum Svíþjóðar. Friði í Evrópu er ógnað og við erum í miðju viðkvæmu umsóknarferli hjá NATO. Síðan ákveða nokkrir flokkar að lýsa yfir vantrausti á ráðherra. Það er mjög vondur tími,“ sagði Annie Lööf, leiðtogi Miðflokksins, fyrir atkvæðagreiðsluna.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september.


Tengdar fréttir

Líf sænsku stjórnarinnar í húfi í atkvæðagreiðslu um vantraust

Úrslit atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á hendur dómsmálaráðherra Svíþjóðar sem fer fram í sænska þinginu í dag gætu ráðið örlögum ríkisstjórnar Magdalenu Anderson forsætisráðherra. Útlit er fyrir að ráðherrann standi tillöguna af sér naumlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×