Lögmaðurinn var í dag dæmdur fyrir að stela peningum sem Daniels átti að fá vegna bókar. Samningurinn hljómaði upp á 800 þúsund dali en saksóknarar sögðu Avenatti hafa stolið um 300 þúsund. Það samsvarar rúmum 38 milljónum króna í dag.
Áður hafði Avenatti starfað fyrir Daniels þegar hún reyndi að losna undan þagnarsamkomulagi hún gerði við Trump skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016, um atvik þar sem þau áttu að hafa sofið saman á árum áður.
Hann var sakfelldur árið 2020 fyrir að hóta forsvarsmönnum Nike. Hann sagði að fyrirtækið ætti að greiða sér 25 milljónir dala, annars myndi hann rústa orðspori þess.
Samkvæmt AP fréttaveitunni þýðir nýjasti dómur Avenatti að hann muni sitja inni í fangelsi í minnst fimm ár vegna beggja dóma.
Við dómsuppkvaðningu í dag kallaði dómarinn Avenatti heigul og sagði hann hafa stolið peningum af Daniels í örvæntingu vegna þess að fyrirtæki hans hafi átt í erfiðleikum. Dómarinn sagði að úrskurðurinn myndi senda þau skilaboð til annarra lögmanna að ef þeir brjóti lögin muni þeir tapa starfi sínu og frelsi.