Umfjöllun: Ísrael - Ísland 2-2 | Fín byrjun íslenska liðsins í Þjóðadeildinni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnór Sigurðsson skoraði seinna mark íslenska liðsins í leiknum. 
Arnór Sigurðsson skoraði seinna mark íslenska liðsins í leiknum.  Vísir/Getty

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta náði í eitt stig þegar liðið sótti Ísrael heim til Haifa í B-deild Þjóðadeildarinnar í kvöld. Lokastaðan í leiknum varð 2-2 eftir flotta frammistöðu íslenska liðsins. 

Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins en þar var að verki Liel Abada. Manor Solomon komst þá helst til auðveldlega framhjá Alfons Sampsted og Brynjari Inga Bjarnasyni áður en hann fann Abada á einan auðum sjó á fjærstönginni.

Skömmu eftir mark ísraelska liðsins fékk Ísland sitt fyrsta opna færi í leiknum. Hákon Arnar Haraldsson, sem spilaði sinn fyrsta A-landsleik í kvöld fann þá Arnór Sigurðsson í góðu færi. Arnór náði hins vegar ekki að hitta markið. Frábær samvinna hjá Skagamönnunum hins vegar.

Íslenska liðinu óx ásmegin í kjölfarið og Jón Dagur Þorsteinsson var nálægt því að jafna metin þegar hann tók boltann á lofti. Markvörður ísraelska liðsins varði hins vegar þrumuskot Jóns Dags í stöngina.

Jón Dagur var líflegasti leikmaðurinn í sóknarleik íslenska liðsins og undir lok fyrri hálfleiks fann kantmaðurinn knái Þóri Jóhann Helgason sem átti hörkuskot í varnarmann Ísraels.

Sama uppskrift var svo í jöfnunarmarki Íslands sem kom á 42. mínútu leiksins. Jón Dagur kom þá með enn eina fyrirgjöfina inn á vítateig Ísraela og Þórir Jóhann nýtti sér klaufagang markvarðar ísraelska liðsins og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark.

Þórir Jóhann Helgason átti flottan leik inni á miðsvæðinu. Vísir/Getty

Íslenska liðið þurfti að gera breytingu á liði sínu í hálfleik. Brynjar Ingi fékk höfuðhögg undir lok fyrri hálfleik og Davíð Kristján Ólafsson leysti hann hólmi. Hörður Björgvin Magnússon fyllti skarð Brynjars Inga í hjarta varnarinnar og Davíð Kristján kom í vinstri bakvörðinn.

Arnór Sigurðsson kom Íslandi yfir eftir tæplega tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Hörður Björgvin geystist þá fram úr varnarlínunni og sendi frábæra stungusendingu á Arnór sem kláraði færið af stakri prýði.

Þórir Jóhann var svo nálægt því að skora sitt annað mark í leiknum og tvöfalda forystu íslenska liðsins fljótlega eftir markið þegar  hann skaut föstu og hnitmiðuðu skoti sem var varið. 

Eftir góðan varnarleik leikmanna íslenska liðsins sofnaði íslenska liðið á verðinum sex mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Shon Zalman Weissman, sem hafði nýverið komið inná sem varamaður skallaði boltann í markið og jafnaði metin.

Heimamenn voru nær því að skora sigurmarkið á lokamínútum leiksins og Weissman komst næst því þegar hann skallaði boltann yfir í uppbótartíma leikins. Jafntefli varð hins vegar niðurstaðan í opnum og skemmtilegum leik.

Af hverju varð jafntefli?

Bæði liðin fengu þó nokkur færi til þess að skora. Ísraelar eftir fyrirgjafir og Ísland sömuleiðis eftir fyrirgjafir og svo eftir vel útfærðar skyndisóknir og föst leikatriði. Jafntefli var sanngjörn niðurstaða í fjörugum leik. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Hörður Björgvin Magnússon gerði vel þegar hann lagði upp seinna mark Íslands. Jón Dagur Þorteinsson var iðinn við að skapa færi fyrir samherja sína. Frumraun Hákons Arnar Haraldssonar var frábær og sveitungi Arnórs Sigurðssonar gerði vel í seinna markinu. Þórir Jóhann Helgason kom sér í góð færi og átti það sannarlega skilið að opna markareikning með landsliðsin. 

Hvað gerist næst?

Ísland fær Albaníu í heimsókn á Laugardalsvöllinn í annari umferð keppninnar á mánudaginn kemur. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira