Fótbolti

Erfiðara að passa tveggja ára son minn en Andy Robertson

Atli Arason skrifar
Federico Valverde, leikmaður Real Madrid.
Federico Valverde, leikmaður Real Madrid. Diego Souto/Quality Sport Images/Getty Images

Federico Valverde, leikmaður Real Madrid, tók sér tíma til að strá salt í sár bakvarðar Liverpool, Andy Robertson, í viðtali eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðustu helgi.

Eftir 1-0 sigur Real Madrid á Liverpool í úrslitaleiknum síðasta laugardag var Valverde fenginn til viðtals þar sem hann hélt á tveggja ára gömlum syni sínum. Sá litli truflaði viðtalið töluvert og var stöðugt að reyna að grípa í gullmedalíu föður síns.

Þegar Úrúgvæinn var spurður hvernig það væri að eiga við sóknarsinnaðan bakvörð Liverpool þá stóð hann ekki á svörum sínum.

„Það er meiri erfiðis vinna að passa son minn enn að dekka Robertson,“ grínaðist Valverde.

Ásamt því að halda Robertson að mestu leyti niðri í leiknum tókst Valverde að leggja um sigurmark leiksins af hægri væng Real Madrid, mark sem Vinicius Jr skoraði. Valverde viðurkenndi þó að hann var ekki að reyna að leggja upp mark heldur ætlaði hann sjálfur að skora.

„Ég komst nálægt vítateignum og skaut. Það endaði samt óvart á því að vera frábær sending og Vinicious lét þetta líta enn þá betur út,“ sagði vængmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×