Enski boltinn

Segir sprengju­hótunina hafa verið yfir strikið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire átti erfitt uppdráttar á nýafstöðnu tímabili.
Harry Maguire átti erfitt uppdráttar á nýafstöðnu tímabili. AP Photo/Jon Super

Harry Maguire, varnarmaður Manchester United og enska landsliðsins, segir að hann geti vel tekið gagnrýni á eigin frammistöðu en að það hafi verið farið yfir strikið þegar sprengjuhótun barst á heimili hans fyrr á þessu ári.

Í apríl þurfti lögreglan að grandskoða heimili Maguire, þar sem hann býr með unnustu sinni og tveimur ungum börnum, eftir að sprengjuhótun barst.

„Ég get höndlað það að fólk sé að gagnrýna mig og segja að ég þurfi að bæta leik minn. Það er hins vegar lína þar sem þetta verður persónulegt. Við erum mannleg og ég á fjölskyldu,“ sagði Maguire í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC.

„Gagnrýnin hefur ekki mikil áhrif á mig en sprengjuhótun, hún snýr að fjölskyldunni minni. Ég er bara glaður að börnin mín eru á þeim aldri að þau geta ekki lesið neitt um þetta eða séð þetta í fréttunum.“

„Það væri aðeins erfiðara ef þau gætu lesið um hvað gekk á og heyrt talað um það í skólanum eða út á götu.“

Maguire viðurkenndi að tímabilið hefði ekki verið gott og fór ekkert í grafgötur með það. Hann segir að hann sjálfur sé enn sinn helsti gagnrýndi „þó það séu margir gagnrýnendur þarna úti.“

„Ég reyni að bæta mig á hverjum degi. Ef þú ætlar að vera við toppinn á 10-15 ára ferli þá munu koma hæðir og lægðir,“ sagði Maguire að endingu.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð hins 29 ára gamla miðvarðar. Talið er að Maguire henti illa leikstíl Erik ten Hag, nýs þjálfara Man Utd, og þá er talið að miðvörðurinn gæti misst fyrirliðabandið er liðið hefur undirbúning fyrir næsta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×