Fótbolti

Lewandowski úthúðar Bayern: „Vil ekki spila þarna lengur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robert Lewandowski hefur skorað 344 mörk fyrir Bayern München. Þau verða væntanlega ekki fleiri.
Robert Lewandowski hefur skorað 344 mörk fyrir Bayern München. Þau verða væntanlega ekki fleiri. getty/Maja Hitij

Robert Lewandowski fór mikinn á blaðamannafundi pólska landsliðsins í dag og fór ófögrum orðum um félag sitt, Bayern München.

Lewandowski hefur staðfest að hann vilji yfirgefa Bayern sem hann hefur spilað með síðan 2014. Samningur pólska framherjans við þýsku meistarana rennur út næsta sumar og hann hefur verið sterklega orðaður við Barcelona.

Miðað við orð Lewandowskis á blaðamannafundi í dag verður að teljast ólíklegt að hann spili með Bayern á næsta tímabili.

„Tíma mínum hjá Bayern er lokið. Ég sé enga möguleika á að spila áfram fyrir þetta félag,“ sagði Lewandowski.

„Bayern er alvarlegt félag og ég trúi því ekki að þeir reyni að halda mér. Ég vil ekki spila þar lengur. Félagaskipti eru besti kosturinn. Ég vona að þeir stöðvi mig ekki.“

Lewandowski hefur orðið þýskur meistari öll átta tímabilin sín hjá Bayern. Hann varð einnig tvívegis þýskur meistari með Borussia Dortmund. Þá vann Lewandowski Meistaradeild Evrópu með Bayern 2020.

Hinn 33 ára Lewandowski hefur skorað 344 mörk í 375 leikjum fyrir Bayern. Hann er næstmarkahæstur í sögu félagsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.