Erlent

„Við vitum hvað virkar gegn þessu“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kamala Harris er varaforseti Bandaríkjanna.
Kamala Harris er varaforseti Bandaríkjanna. AP

Varaforseti Bandaríkjanna kallar eftir því að þingið bregðist við vaxandi skotvopnaógn í landinu og banni almenningi að eiga árásarvopn. Börnin nítján og kennararnir tveir sem voru myrtir í skotárás í grunnskóla í Uvalde í Texas í síðustu viku hafa nú verið nafngreind

Varaforsetinn tjáði sig um vaxandi skotvopnaógn í Bandaríkjunum eftir að hún var viðstödd jarðarför hinnar 86 ára gömlu Ruth With-field sem var sú elsta sem lést í skotárás í stórmarkaði Í New York fyrir tveimur vikum. Rúmlega viku eftir skotárásina skaut átján ára gamall árásarmaður nítján börn og tvo kennara til bana í grunnskóla í Uvalde í Texas.

Vill banna árásarvopn

Varaforsetinn sagði lausnina við vaxandi byssuógn einfalda.

„Ég hef oft sagt að við megum ekki sitja með hendur í skauti og leita að lausn. Við erum ekki að leita að bóluefni. Við vitum hvað virkar gegn þessu. Eitt af því er að banna árásarvopn,“ sagði Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna.

Hún sagði að árásarvopn væru hönnuð í þeim eina tilgangi að drepa margt fólk í einu og að slík vopn eigi ekki heima úti í samfélaginu.

„Þingið þarf að grípa til ráðstafana. Við þurfum að sameinast sem ein og óskipt þjóð þar sem allir standa saman.“

Börnin nítján og kennararnir tveir sem voru myrtir í árásinni í Uvalde í hafa nú verið nafngreindir. Yngsta barnið var níu ára gamalt en það elsta ellefu ára. Nöfn þeirra má finna á Vísi ásamt stuttum eftirmæli sem AP fréttastofan tók saman. 

Í kjölfar árásarinnar hafa skólar víðsvegar um Bandaríkin hert öryggisgæslu. Margir skólar hafa takmarkað komur gestkomandi, fjölgað öryggismyndavélum og í borginni Buffalo í New York þurfa foreldrar að fá sérstakt leyfi til þess að koma inn í skóla þar sem allar dyr skólabygginga verða læstar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×