Fótbolti

Marcelo kveður með viðeigandi hætti

Hjörvar Ólafsson skrifar
Marcelo fagnar Meistaradeildartitlinum með fjölskyldu sinni á Stade de France í gær. 
Marcelo fagnar Meistaradeildartitlinum með fjölskyldu sinni á Stade de France í gær.  Vísir/Getty

Brasilíski vinstri bakvörðurinn Marcelo sem leikið með nýkrýndum sigurvegurum í Meistaradeild Evrópu í fótbolta karla, Real Madrid í 15 ár, mun róa á önnur mið í sumar.  

Samningur Marcelo við Real Madrid rennur út um næstu mánaðamót og mun hann ekki framlengja dvölina í Madrídarborg. 

Á þeim 15 árum sem Marcelo hefur leikið fyrir Real Madrid hefur hann unnið 25 titla en Brasilíumaðurinn lyfti Meistaradeildarbikarnum í fimmta skipti á Stade de France í gærkvöldi. 

Thank you BERNABÉU! I love you all 😍

See you in Paris 💪🏾💜#M12pic.twitter.com/dV9n2frK7w

— Marcelotwelve (@MarceloM12)

Marcelo, sem mun kveðja Real Madrid formlega á Santiago Bernabéu í dag, er sigursælasti leikmaður í sögu félagsins. 

„Það er með mikilli gleði í hjarta og þakklæti í garð stuðningsmanna Real Madrid sem ég kveð félagið á góðum nótum. Ég mun ávallt geyma minningarnar af þeim töfrandi stundum sem ég hef átt á Santiago Bernabéu," sagði Marcelo hrærður í París í gær. 

„Það er mikill heiður að vera fyrsti Brasilíumaðurinn til þess að lyfta Meistaradeildarbikarnum sem fyrirliði Real Madrid. Það eru blendnar tilfinningar sem bærast um í hjarta. 

Þó svo að það sé erfitt að hugsa til þess að þetta hafi verið síðasti leikurinn í búningi Real Madrid er ég alsæll með það hvernig ég kveð félagið og sáttur við tíma minn þar," sagði þessi 34 ára gamli leikmaður enn fremur. 

Real Madrid hefur hins vegar að sögn Fabricio Romano ákveðið að framlengja samninga sína við miðvallarleikmennina Toni Kroos og Luka Modric en nokkur óvissa hefur verið um framtíð þessara dyggu þjóna liðsins undanfarið. 

Talið er að Real Madrid muni tilkynna um samninga sína við Þjóðverjann og Króatann í komandi viku þegar fagnaðarlátum vegna nýliðinnar leiktíðar linnir. 

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.