Erlent

Nepalskrar flugvélar saknað með 22 innan­borðs

Eiður Þór Árnason skrifar
Fólk fyrir utan Tribhuvan alþjóðaflugvöllinn í Katmandú, höfuðborg Nepals.
Fólk fyrir utan Tribhuvan alþjóðaflugvöllinn í Katmandú, höfuðborg Nepals. AP/Niranjan Shreshta

Lítillar farþegaflugvélar á vegum nepalska flugfélagsins Tara Airlines er saknað en 22 eru um borð í vélinni, þar af þrír áhafnarmeðlimir. Flugvélin hvarf klukkan 9:55 að staðartíma í morgun.

CNN hefur eftir talsmanni flugfélagsins að um hafi verið að ræða innanlandsflug frá nepölsku borginni Pokhara til Jomsom, sem er vinsæll ferðamannabær inn í miðju landi. 

Nepalski herinn aðstoðar við leitina að flugvélinni en flugferðin átti einungis að taka fimmtán mínútur. Um er að ræða Twin Otter-flugvél sem búin er skrúfuhverfli en að sögn AP-fréttaveitunnar mistti flugvélin samband við flugturn skömmu eftir flugtak. Flugleiðin liggur milli fjalla og enda flugmenn á því að lenda í dal sem umlykur fjallabæinn Jomsom. 

Indverjar og Þjóðverjar um borð

Sex erlendir ríkisborgarar voru um borð í vélinni, fjórir Indverjar og tveir Þjóðverjar, að sögn lögreglumanns sem ræddi við AP. Samkvæmt gögnum frá Flightradar24 tók 43 ára gömul flugvél á loft frá Pokhara klukkan 04:22 að íslenskum tíma.

Árið 2016 fórust 23 einstaklingar þegar sambærileg Twin Otter-flugvél, einnig á vegum Tara Airlines, hrapaði á sömu flugleið. Árið 2012 fórust svo fimmtán þegar flugvél á vegum Agni Air hrapaði sömuleiðis á leið frá Pokhara til Jomsom en sex einstaklingar lifðu slysið af.  

2014 hrapaði flugvél Nepal Airlines á leið frá Pokhara til Jumla og fórust allir átján um borð. Árið 2018 hrapaði US-Bangla farþegaflugvél á leið frá Bangladesh við lendingu á flugvellinum í Kathmandu, höfuðborg Nepals, með þeim afleiðingum að 49 af 71 farþegum fórust. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×