Innlent

Prestar eigi að bregðast við þegar valdhafar dæmi jaðarsetta til helvítisvistar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur á Akureyri. 
Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur á Akureyri.  Mynd/Ísland í dag

Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri segir varhugavert að veita eigi prestum tiltal fyrir að vera harðorðir þegar tilefni sé til. Hann segir þá skjóta skökku við að biskup Íslands hafi gagnrýnt ríkisstjórn landsins fyrir fyrirhugaðar fjöldabrottvísanir en veiti presti tiltal fyrir að gagnrýna það sama. 

„Mér finnst viðbrögð biskups vera á pínu gráu svæði, jafnvel bara hættuleg. Alla vega þessi yfirlýsing sem er gefin út þar sem kemur fram að búið sé að veita honum formlegt tiltal,“ segir Sindri Geir í samtali við fréttastofu. 

Hann vísar þar til yfirlýsingar biskups sem birtist í morgun, þar sem greint var frá að hann hafi veitt sr. Davíð Þór Jónssyni formlegt tiltal vegna orða hans í garð íslensku ríkisstjórnarinnar og flokksliða Vinstri grænna vegna fyrirhugaðra fjöldabrottvísana. 

Málið hefur verið til mikillar umræðu og verið afar umdeilt en til stendur að vísa á þriðja hundrað hælisleitenda úr landi á næstu dögum og vikum. Biskup gagnrýndi sjálf á mánudag fyrirhugaðar brottvísanir og sagði þær stríða gegn kristnum gildum. 

„Það kemur yfirlýsing í gær eða fyrradag frá biskup Íslands sem á að vera samstaða með þessu fólki sem verið er að vísa úr landi. Þá er rosalega undarlegt að fara að berja á þeim prestum kirkjunnar sem taka undir þetta með sínum orðum og harðara orðalagi,“ segir Sindri Geir.

„Hvað megum við segja?“

Davíð Þór Jónsson sóknarprestur birti svo í gær færslu á Facebook þar sem hann kallaði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fasistastjórn og sagði sérstakan stað í helvíti fyrir „fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur.“

Orð Davíðs hafa verið gagnrýnd af mörgum og Orri Páll Jóhannsson þingflokksformaður Vinstri grænna sagði í gær ummæli Davíðs ala á hatursorðræðu. 

Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur á Akureyri segir það athugavert að hægt sé að veita prestum tiltal gagnrýni þeir yfirvöld. 

„Í gegn um Íslandssöguna hafa prestar alltaf haft miklu meira frelsi til að gagnrýna yfirvöld heldur en flestir aðrir í samfélaginu, þó það hafi ekki endilega allir nýtt það frelsi. Núna erum við ekki embættismenn, sem hefur kosti en við erum bara starfsmenn á plani. Þetta tiltal sem Davíð er búinn að fá gerir það að verkum að í raun þyrfti hann bara að fá eitt tiltal enn svo hægt sé að segja honum upp,“ segir Sindri. 

„Þá erum við bara á mjög hættulegum stað hvað varðar málfrelsi og tjáningarfrelsi presta ef einhver í stjórnkerfi kirkjunnar getur, ef hann er ósammála presti eða tekur við kvörtun, ákveðið að ef eitthvað sé vafasamt eða að rugga bátnum að hægt sé að segja honum upp. Mér finnst það hættulegt fordæmi. Ég veit ekki betur en þetta sé fyrsta skiptið eftir að prestar hætta að vera embættismenn sem þetta kemur upp og þá þurfa allir prestar að spyrja sig: Hvað megum við segja?“

„Við erum endalaust að varpa fólki í helvíti“

Sindri Geir segir einnig óljóst að hverju tiltalið snúi. 

„Snýst tiltalið um það að hann kalli ríkisstjórnina fasíska? Það finnst mér á grennsunni því hvað ætlar maður þá að kalla alvöru fasíska leiðtoga ef við ætlum að setja fasismastimpilinn á þessa ríkisstjórn. Það er eitthvað sem ég myndi sjálfur ekki taka undir,“ segir Sindri. 

„En þetta með helvítisstimpilinn, þar er hann að nýta það myndmál sem er í okkar trúararfi og sem meistarinn okkar notar. Við erum endalaust að varpa fólki í helvíti, við erum endalaust að valda fólki þjáningu. Sama hvort við lítum til systkina okkar sem eru í sprengjubirgi í Úkraínu eða þessi tæplega þrjú hundruð sem verið er að fara að henda út í óvissu og lífshættu,“ segir Sindri. 

Helvíti vísi ekki til eftirlífs heldur til manngerða þjáninga

Hann segist þeirrar skoðunar að Davíð sé að því leiti innan marka og Davíð sé þar að tala út frá hans trúarhefð. Sindri vekur sérstaklega athygli á umræðu um helvíti í pistli sem hann birti á heimasíðu kirkjunnar í dag. Þar vekur hann athygli á því að það helvíti sem við lesum um í orðum Jesú vísi ekki til einhvers veruleika í eftirlífinu, heldur til manngerðar þjáningar sem við sköpum í lífi samferðarfólksins dag hvern. 

„Þegar Jesú talar um eldvíti eða helvíti þá stendur þar að baki gríska orðið „Gehenna“ sem er örnefni. Þar er vísað til Hinnom dals utan við Jerúsalem. Á dögum Jesú voru þar logandi ruslahaugar þangað sem líkum þeirra sem stóðu á jaðri samfélagsins var varpað og þau brennd. Þar hafði fyrir tíð gyðinga í landinu helga verið fórnarstaður Kanverja þar sem fólk og börn voru tekin af lífi til að friða guðina. Eldvítið er ekki eitthvað sem bíður fólks í eftirlífinu, helvíti er til staðar hér og nú. Það eru aðstæður og staðir gjörsneydd af nærvegru Guðs, staðir án náungakærleiks og vonar,“ skrifar Sindri Geir í pistlinum. 

Prestar eigi að bregðast við þegar valdhafar dæmi jaðarsetta til helvítisvistar

Hann segir ljóst að Davíð hafi með orðum sínum vísað til þess helvítis sem mannfólkið skapi á jörðinni. 

„Hann stendur alveg kirfilega þar að hann er að tala þarna um mannskap og helvíti á jörð. Hann er ekkert að vera í einhverju trúarlegu ofbeldi eins og maður sér í Bandaríkjunum þar sem fólki er sagt að fara til helvítis ef það gerir hitt eða þetta. Það er ekki sá þráður sem er í gangi,“ segir Sindri. 

Hann segir í pistli sínum á vef kirkjunnar að prestar hafi ekkert vald yfir því hvað taki við að þessu lífi loknu en ætli þeir að vera trúir boðskapi sínum sem þjónar kirkjunnar verði þeir að bregðast við þegar valdhafar í íslensku samfélagi „dæma jaðarsett fólk til raunverulegrar helvítisvistar.“

„Ef það kallar á sterk orð til að vekja fólk til umhugsunar - þá er það gott og blessað. Ef þessi sterku orð sr. Davíðs kveikja hjá þér hneykslan eða reiði, eins og orð Jesú gerðu gjarnan hjá þeim sem fóru með völd eða voru í forréttindastöðu, þá er það eflaust til merkis um að þú þurfir að staldra við og horfast í augu við eigin afstöðu.“


Tengdar fréttir

„Ólík sjónarmið“ á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ólík sjónarmið hafa komið fram á ríkisstjórnarfundi í gær um yfirvofandi brottvísanir fólks sem sótt hefur um vernd hér á landi. Hún svarar því ekki beint hvort hún taki undir óánægju félagsmálaráðherra með framgöngu dómsmálaráðherra - en segist taka undir ákveðin sjónarmið þess fyrrnefnda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.