Yfirlýsing séra Davíðs Þórs Jónssonar í gær hefur vakið mikla athygli en þar sagði hann að sérstakur staður sé í helvíti fyrir fólk sem selji sál sína fyrir völd og vegtyllur, og vísaði þar í aðgerðaleysi stjórnvalda vegna fjöldabrottvísana sem standa til á næstunni.
„Í fréttum er það helst að fasistastjórn VG hefur ákveðið að míga á Barnasáttmála SÞ, sem hún þó lýgur því að hún hafi „lögfest“ á Íslandi, en þar kemur skýrt fram að hann gildi um öll börn í lögsögu hvers ríkis - óháð því með hvaða hætti þau komu þangað,“ skrifaði Davíð Þór í færslu á Facebook í gær.
Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands gagnrýndi sjálf stjórnvöld fyrir fyrirhugaðar brottvísanir í gær. Hún veitti hins vegar Davíð Þór formlegt tiltal fyrir þau „harkalegu og ósmekklegu skrif sem hann viðhafði á Facebook-vettvangi“ sínum í gær.
„Mér finnst nú gagnrýni biskups Íslands og sóknarprests Þjóðkirkjunnar eðlisólík,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
„Og ég verð að segja það að mér finnst ummæli Davíðs Þórs dæma sig algjörlega sjálf.“
Á meðal þeirra sem gagnrýndu Davíð Þór fyrir ummælin var Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri á Viljanum. Hann skrifar á Facebook í gær að hann hafi andstyggð á því að fólk sem hér hafi skotið rótum sé sent úr landi.
Hann sé hins vegar feginn því að Davíð Þór sé ekki hans sóknarprestur og bendir á að Davíð Þór sé fyrrverandi sambýlismaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og sendi henni í færslu sinni „ómerkilega skítapillu.“