Fótbolti

Reyndi að fá Hólmar aftur í lands­liðið: „Maður er með nei en getur fengið já“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson í baráttu við Romelu Lukaku í leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni fyrir tæpum tveimur árum.
Hólmar Örn Eyjólfsson í baráttu við Romelu Lukaku í leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni fyrir tæpum tveimur árum. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson reyndi að fá Hólmar Örn Eyjólfsson til að gefa aftur kost á sér í íslenska landsliðið fyrir leikina fjóra í næsta mánuði.

Fyrir ári síðan tilkynnti Hólmar Arnari að hann væri hættur í landsliðinu. Síðan þá hafa reynslumiklir miðverðir helst úr lestinni og Arnar freistaði því þess að fá Hólmar til að endurskoða ákvörðun sína.

„Ég talaði við hann. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hans sem leikmann. Það er ekki langt síðan hann spilaði með Rosenborg á háu getustigi og hann hefur byrjað tímabilið með Val vel,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag.

„Það er ár síðan Hólmar tilkynnti mér að hann ætlaði að einbeita sér að sínum ferli. Maður er með nei en getur fengið já. Hann er ekki bara mjög góður leikmaður heldur mjög reyndur.“

Að sögn Arnars hugsaði Hólmar málið en sagði á endanum nei. Hólmar lék nítján landsleiki og skoraði tvö mörk. Eftir að hafa spilað sem atvinnumaður erlendis síðan 2008 sneri Hólmar aftur heim til Íslands í vetur og samdi við Val.

Þrír miðverðir eru í íslenska hópnum sem var kynntur í dag: Ari Leifsson, Brynjar Ingi Bjarnason og Daníel Leó Grétarsson. Þá getur Hörður Björgvin Magnússon leyst þá stöðu.

Ísland mætir Albaníu tvívegis í Þjóðadeildinni í næsta mánuði og Ísrael einu sinni. Þá eigast Ísland og San Marinó við í vináttulandsleik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.