Umfjöllun, viðtöl og myndir: Breiðablik - Valur 0-1 | Meistararnir höfðu betur í stórleiknum

Andri Már Eggertsson skrifar
Valskonur fögnuðu sigri á Kópavogsvelli
Valskonur fögnuðu sigri á Kópavogsvelli Vísir/Diego

Valskonur unnu góðan 0-1 sigur er liðið heimsótti Breiðablik í stórleik sjöttu umferðar í Bestu-deild kvenna í fótbolta í kvöld.

Breiðablik fékk þrjár hornspyrnur á fyrstu fimm mínútunum. Heimakonur nýttu hornspyrnurnar vel og fengu afar hættuleg færi. Melina Ayres kom boltanum í netið en var fyrir innan er hún potaði boltanum í netið eftir þrumuskot Taylor Marie og markið fékk ekki að standa.

Sandra Sigurðardóttir hafði í nógu að snúast á fyrsta korterinu. Hildur Antonsdóttir átti góða sendingu á Karítas Tómasdóttur sem slapp í gegn en Sandra gerði vel í að loka á hana og varði frá henni.

Það var hart barist á Kópavogsvelli í kvöldVísir/Diego

Eftir góða byrjun Breiðabliks komst Valur betur inn í leikinn þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður. Besta færi Vals í fyrri hálfleik kom á 26. mínútu þegar Ásdís Karen Halldórsdóttir hélt hún væri sloppin í gegn en þá mætti Heiðdís Lillýjardóttir og straujaði þá boltann í innkast.

Eftir nokkuð fjörugar 45 mínútur var staðan markalaus. Breiðablik fékk átta hornspyrnur í fyrri hálfleik sem skapaði góð færi en inn vildi boltinn ekki.

Sandra Sigurðardóttir átti góðan leik í marki ValsVísir/Diego

Það dró til tíðinda á 55. mínútu þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir stangaði hornspyrnu Ásdísar Karenar í netið. Sjöunda mark Vals úr föstum leikatriðum á tímabilinu.

Breiðablik skapaði sér lítið sem ekkert af færum eftir mark Vals sem var með yfirhöndina fyrstu tuttugu mínúturnar í síðari hálfleik.

Sandra Sigurðardóttir varði frábærlega frá Áslaugu Mundu eftir góðan undirbúning frá Hildi sem renndi boltanum inn í teig á Áslaugu sem átti þrumuskot sem Sandra varði.

Breiðablik gerði ágætlega í að skapa sér færi á síðasta korterinu en vörn Vals stóð vaktina vel ásamt Söndru sem varði allt sem kom á markið.

Heimakonur fengu víti þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Ásdís Karen braut á Heiðdísi og var Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari, í engum vafa og flautaði víti.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dómari leiksins þurfti að ræddi við leikmennVísir/Diego

Melina Ayres tók vítið og setti boltann í hægra hornið en þar mætti Sandra og varði frábærlega. Annað vítið sem Breiðablik klúðrar á tímabilinu. Niðurstaðan 0-1 sigur Vals í fjörugum leik.

Af hverju vann Valur?

Bæði lið fengu þó nokkur færi í leiknum. Þrátt fyrir að Valur fengi sjö hornspyrnum minna en Breiðablik endaði ein hornspyrna Vals með marki sem reyndist sigurmark leiksins.

Sandra Sigurðardóttir sá til þess að Breiðablik myndi ekki jafna leikinn þegar lítið var eftir með því að verja vítaspyrnu.

Hverjar stóðu upp úr?

Arna Sif Ásgrímsdóttir fór á kostum. Arna var eins og klettur í vörn Vals ásamt því að skora eina mark leiksins.

Sandra Sigurðardóttir átti einnig stórleik í markinu en hún varði nokkur skot afar vel og kórónaði síðan frábæran leik með því að verja vítaspyrnu á 82. mínútu. 

Hvað gekk illa?

Breiðablik fékk tólf hornspyrnur í leiknum en töpuðu leiknum með því að fá á sig mark úr hornspyrnu sem reyndist afar súrt. 

Breiðablik hefur fengið þrjú víti það sem af er tímabils og aðeins tekist að skora úr einu. 

Hvað gerist næst?

Miðvikudaginn eftir viku fer Breiðablik á Fagverksvöllinn og mætir Aftureldingu klukkan 19:15.

Valur fær ÍBV í heimsókn á miðvikudaginn eftir viku klukkan 18:00.

Ásmundur: Þurfum að fara æfa vítin

Ásmundur var svekktur með tap kvöldsinsVísir/Diego

Ásmundur Arnarson, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með tap kvöldsins.

„Þetta var hörkuleikur, mér fannst við líklegri aðilinn en þær eru góðar í föstum leikatriðum eins og við vissum. Við fengum víti og nokkur dauðafæri en það var saga sumarsins að við klárum ekki færin sem setur okkur í erfiða stöðu í deildinni,“ sagði svekktur Ásmundur eftir leik.

Breiðablik fékk tólf hornspyrnur sem var sjö hornspyrnum meira en Valur sem skoraði eina mark leiksins upp úr hornspyrnu.

„Það var mjög súrt að fá á sig mark úr hornspyrnu. Það er alltaf súrt að tapa og tala nú ekki um þegar sigurmarkið kemur eftir hornspyrnu.“

Breiðablik fékk vítaspyrnu sem Sandra Sigurðardóttir, markmaður Vals, varði. Þetta var önnur vítaspyrnan sem Breiðablik klúðrar á tímabilinu.

„Það er erfitt að segja til um það hvers vegna við klikkum á vítum. Það var ekki sami aðilinn sem tók bæði vítin en við þurfum að fara æfa vítin,“ sagði Ásmundur að lokum.

 

Myndir:

Áslaug Munda með sendinguVísir/Diego

Einvígi úr leik kvöldsinsVísir/Diego

Elín Metta byrjaði á bekknum en kom inn áVísir/Diego

Valur fagnaði markinuVísir/Diego

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira