Erlent

Öflugasta eldflaugin aftur á skotpall fyrir tunglskot

Samúel Karl Ólason skrifar
Space Launch System eldflaugin og Orion geimfar á skotpalli í Flórída í apríl.
Space Launch System eldflaugin og Orion geimfar á skotpalli í Flórída í apríl. NASA/Joel Kowsky

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) tilkynnti um helgina að hefja ætti aftur æfingar fyrir fyrsta geimskot Space Launch System-eldflaugarinnar. Það eigi að gerast snemma í næsta mánuði en samskonar æfingu var hætt í byrjun apríl vegna bilana.

Samkvæmt upplýsingum á vef NASA telja verkfræðingar og vísindamenn stofnunarinnar að búið sé að laga þær bilanir en meðal annars var um að ræða leka úr eldsneytistönkum eldflaugarinnar.

Æfingin sem um ræðir er í raun generalprufa og snýst um að líkja eftir aðdraganda raunverulegs geimskots með því að fylla á eldsneytistanka eldflaugarinnar og fleira.

Áætlað er að æfingin fyrir geimskotið muni hefjast um tveimur vikum eftir að eldflauginni verður aftur komið fyrir á skotpallinum. Ef æfingin heppnast yrði svo tekin ákvörðun um hvenær geimskotið sjálft gæti farið fram.

 þróun og framleiðsla SLS hefur einkennst af töfum og vandræðum. Eldflaugin á að verða sú öflugasta í heimi en upprunalega stóð til að skjóta þeirri fyrstu á loft árið 2016.

NASA og Boeing hafa þó frestað geimskotinu ítrekað í gegnum árin.

Fyrsta geimskot SLS kallast Artemis-1 og yrði það sömuleiðis fyrsta geimskot Artemis-áætlunarinnar svokölluðu. Hún snýr að því að senda menn aftur til tunglsins og koma þar jafnvel upp varanlegri bækistöð.

Artemis-1 snýst um að senda ómanna Orion-geimfar á braut um tunglið og aftur til jarðar.

Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.


Tengdar fréttir

Hættu æfingu fyrir tunglferð vegna bilunar

Vísindamenn og verkfræðingar Geimvísindastofnunnar Bandaríkjanna lýstu því yfir í kvöld að búið væri að hætta við æfingu fyrir fyrstu tunglferð Artemis-áætlunarinnar. Það var gert eftir að tvær bilanir komu upp þegar verið var að dæla eldsneyti á Space Launch System-eldflaugina (SLS).

Nýja tunglflaugin loks komin á skotpall

Eldflaugin Space Launch System (SLS) er komin á skotpall í Flórída í fyrsta sinn. Þar verða gerðar prófanir á eldflauginni og ef þær heppnast er vonast til þess að hægt verði að skjóta henni á loft í fyrsta sinn og senda ómannað Orion-geimfar hring í kringum tunglið og til baka.

Vilja herma eftir björnum og leggja geimfara í dvala

Vísindamenn Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) leita nú leiða til að setja geimfara framtíðarinnar í dvala, ekki ósvipað því sem bjarndýr gera á veturna. Þannig væri hægt að spara gífurlega mikið magn matar, vatns og annarra birgða sem eru mönnum nauðsynlegar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×