Erlent

Bein útsending: Gera aðra tilraun til að skjóta nýju geimfari til geimstöðvarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Starliner geimfarið á V-eldflaug ULA á skotpalli í Flórída.
Starliner geimfarið á V-eldflaug ULA á skotpalli í Flórída. NASA/Joel Kowsky

Bandarískir geimvísindamenn ætla að skjóta Starliner, nýju geimfari Boeing, til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í kvöld. Síðast var reynt að skjóta geimfarinu til geimstöðvarinnar árið 2019 en það misheppnaðist og hafa miklar tafir orðið á annarri tilraun.

Starliner verður skotið til geimstöðvarinnar með V-eldflaug United Launch Alliance. Um borð verða birgðir og annað fyrir geimfara sem eru þar fyrir. Eftir fimm til tíu daga á að senda farið aftur til jarðar og lenda því í Bandaríkjunum.

Auk birgða er gínan Rosie um borð í geimfarinu. Hún er búin skynjurum og er ætlað að varpa ljósi á það hvernig geimferð um borð í Starliner færi með mennska geimfara.

Til stendur að skjóta geimfarinu á loft klukkan 22:54 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með geimskotinu í beinni útsendingu hér að neðan.

Langar tafir

Til stóð að skjóta Starliner til geimstöðvarinnar í desember 2019. Því var skotið á loft en geimfarið komst aldrei á rétta sporbraut. Var það vegna þess að innri klukka geimfarsins var ekki í samræmi við klukku Atlas V-eldflaugarinnar sem notuð var til að skjóta Starliner á loft. Þá var Rosie einnig um borð.

Síðan þá hefur öðru geimskotinu ítrekað verið frestað.

Sjá einnig: Geimskoti Starliner frestað þrisvar sinnum á einni viku

Í apríl átti að gera tilraun með nýja Space Launch System, nýja eldflaug NASA, (SLS) og átti að senda ómannað Orion-geimfar á braut um tunglið og til baka. Því hefur þó ítrekað verið frestað og nú síðast í apríl eftir að æfing sem átti að líkja eftir aðdraganda raunverulegs geimskot misheppnaðist.

Sjá einnig: Hættu æfingu fyrir tunglferð vegna bilunar

Enn liggur ekki fyrir hvenær stendur til að reyna næst. Leki kom á eldflaugina í apríl og á það að hafa verið lagað, samkvæmt stöðuuppfærslu NASA í síðustu viku. SLS á að vera burðarliður í Artemis-áætluninni svokölluðu.

Artemis-áætlunin gengur út á að koma mönnum aftur til tunglsins á þessum áratug. Árið 2024 stendur til að senda menn hring um tunglið og svo eiga aðrir að lenda þar árið 2025. Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.


Tengdar fréttir

Jarðskjálftamælir á Mars verður rykinu að bráð

Útlit er fyrir að bandaríska geimfarið Insight á Mars syngi sitt síðasta í sumar þegar rafhlöður þess tæmast. Farið missir nú orku vegna ryks sem safnast hefur fyrir á sólarsellum þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×