Erlent

Áttatíu einstaklingar í tólf ríkjum greinst með apabólu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ör eftir apabólu.
Ör eftir apabólu. Getty/CDC

Fleiri en 80 tilfelli apabólu hafa greinst í að minnsta kosti tólf ríkjum. Alþjóðaheilbrigðisstofunin segir að verið sé að rannsaka um 50 möguleg tilvik til viðbótar og varar við því að þeim muni fjölga.

Meðal þeirra landa þar sem apabóla hefur greinst eru níu Evrópuríki, Bandaríkin, Kanada og Ástralía. Sjúkdómurinn er hins vegar algengastur á afskekktum svæðum í Mið- og Vestur-Afríku.

Um er að ræða veirusýkingu sem er oftast mild og flestir jafna sig á á nokkrum vikum. Sjúkdómurinn smitast ekki auðveldlega og heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi segja litla áhættu steðja að samfélaginu.

Það er ekki hægt að bólusetja gegn apabólu en bólusetning gegn bólusótt veitir 85 prósenta vörn þar sem sjúkdómarnir eru nokkuð áþekkir.

Evrópuríkin þar sem apabólan hefur greinst eru Bretland, Spánn, Portúgal, Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Holland, Belgía og Svíþjóð.

Það er ekki vitað hvers vegna sjúkdómurinn greinist nú á Vesturlöndum en WHO segir útbreiðslu veirunnar nú óvenjulega, þar sem um sé að ræða ríki þar sem sjúkdómurinn er ekki landlægur.

Einn möguleiki er að veiran hafi breyst en ekkert bendir þó til að svo sé. Annar möguleiki er að sjúkdómurinn dreifist auðveldar nú, þegar notkun bóluefnisins við bólusótt er ekki lengur jafn útbreidd.

WHO segir mögulegt að apabóla muni dreifast eitthvað nú þegar sumarið gengur í garð og fólk safnast saman, til að mynda á útihátíðum. Stjórnvöld á Bretlandi og á Spáni hafa nú þegar keypt nokkrar birgðir af bóluefninu við bólusótt til að gefa þeim sem kunna að verða útsettir fyrir apabólu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.