Fótbolti

Mbappé hélt upp á nýja samninginn með því að skora þrennu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé skoraði þrjú í kvöld.
Mbappé skoraði þrjú í kvöld. EPA-EFE/Mohammed Badra

Kylian Mbappé skoraði þrennu er París Saint-Germain valtaði yfir Metz 5-0 í lokaumferð frönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Fyrr í dag bárust þær fregnir að Mbappé hefði ákveðið að gefa Real Madríd fingurinn og endursemja í París. Talið var öruggt mál að Mbappé myndi semja við Real er samningur hans rynni út í sumar.

Til að bæta gráu ofan á svart þá virðist Paul Pogba vera á leiðinni til Juventus og Erling Braut Håland hefur samið við Manchester City. Sem stendur er þýski miðvörðurinn Antonio Rüdiger eini leikmaðurinn á leiðinni til Real í sumar.

Mbappé hélt svo upp á nýja samninginn í París – sem hann á þó enn eftir að skrifa undir – með því að skora þrennu í þægilegum 5-0 sigri meistaraliðs PSG á Metz í kvöld.

Mbappé hóf veisluna á 25. mínútu og bætti við öðru marki þremur mínútum síðar. Bæði mörkin lögð upp af Argentínumönnum, Angel Di María lagði upp fyrsta markið og Lionel nokkur Messi það síðara.

Neymar bætti við þriðja marki PSG aðeins þremur mínútum eftir annað mark Mbappé og staðan 3-0 er liðin gengu til búningsherbergja.

Mbappé fullkomnaði þrennu sína snemma í síðari hálfleik og varð útlitið bjartara fyrir Metz þegar Boubacar Traore lét reka sig út af átta mínútum síðar eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald í leiknum.

Di María skoraði fimmta mark PSG á 67. mínútu og þó nóg hafi verið eftir af leiknum þá urðu mörkin ekki fleiri, lokatölur 5-0. PSG endar tímabilið með 86 stig, fimmtán stigum meira en Monaco og Marseilla sem enda tímabilið í 2. og 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×