Fótbolti

Þjálfari íslensku stelpnanna í Brann gæti orðið þjálfari íslensku stelpnanna í Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjá Brann spila íslensku landsliðskonurnar Svava Rós Guðmundsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir en liðið er ósigrað á toppi norsku deildarinnar eftir níu umferðir.
Hjá Brann spila íslensku landsliðskonurnar Svava Rós Guðmundsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir en liðið er ósigrað á toppi norsku deildarinnar eftir níu umferðir. Instagram/@brannkvinner

Alexander Straus hefur verið að gera góða hluti með kvennalið Brann í norska fótboltanum og nú er hann orðaður við starfið hjá kvennaliði Bayern München.

Jens Scheuer er hættur sem þjálfari Bayern eftir þriggja ára starf. Samkvæmt frétt hjá staðarblaðinu Bergensavisen þá vill þýska liðið fá þjálfara Brann.

Straus gerði Brann, þá undir nafni Sandviken, að norskum meisturum í fyrra og þá fór liðið líka í bikarúrslitaleikinn.

Straus var ekki tilbúinn að tjá sig um málið þegar blaðamaður Bergensavisen talaði við hann.

„Lið sem upplifir velgengi hefur innan sinna raða eftirsótta þjálfara og eftirsótta leikmenn. Það er alveg ljóst að það er áhugi á okkar fólki,“ sagði Pål Hafstad Thorsen, stjórnarformaður Brann, í viðtali við BA.

Hjá Brann spila íslensku landsliðskonurnar Svava Rós Guðmundsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Brann hefur unnið átta af fyrstu níu leikjum sínum á tímabilinu og níundi leikurinn endaði með jafntefli.

Hjá Bayern eru þrjár íslenskar landsliðskonur eða þær Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×