Erlent

Shkreli látinn laus úr fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Martin Shkreli eignaðist fáa vini með framferði sínu sem forstjóri lyfjafyrirtækisins Turing Pharmaceuticals.
Martin Shkreli eignaðist fáa vini með framferði sínu sem forstjóri lyfjafyrirtækisins Turing Pharmaceuticals. AP/Susan Walsh

Bandarísk yfirvöld slepptu Martin Shkreli, fyrrverandi forstjóra lyfjafyrirtækis, úr fangelsi eftir að hann hafði afplánað hluta sjö ára fangelsisdóms sem hann hlaut árið 2017. Shkreli hefur meðal annars verið nefndur „hataðasti maður internetsins“ vegna gríðarlegrar verðhækkunar á alnæmislyfi.

Alríkisdómari dæmdi Shkreli í sjö ára fangelsi fyrir að ljúga að fjárfestum í vogunarsjóði sem hann rak og að svindla á fjárfestum í lyfjafyrirtækinu Turing Pharmaceuticals. Honum var sleppt snemma úr fangelsi í Pennsylvaníu og færður á áfangaheimili í dag, að sögn AP-fréttastofunnar. Hann hefði annars ekki átt að losna fyrr en í september á næsta ári.

Shkreli varð frægur að endemum þegar fyrirtæki hans keypti framleiðslurétt á lyfinu Daraprim sem er notað gegn sýkingu hjá alnæmis-, malaríu- og krabbameinssjúklingum og hækkaði verðið á því um 5.000%. Hækkunin skýrði hann með því að svona væri kapítalisminn í verki og sjúkratryggingar gerðu sjúklingum kleift að fá lyfið þrátt fyrir hana.

Eftir að Shkreli var handtekinn árið 2015 sagði hann af sér sem forstjóri. Hann bakaði sér enn frekari óvinsældir þegar hann keypti eina eintakið sem til var af plötu sem bandaríska rapphljómsveitin Wu-tang gerði. Bandaríska ríkið lagði hald á plötuna í tengslum við saksókn Shkreli.

Á meðan Shkreli beið refsingar eftir sakfellingu gekk hann laus gegn tryggingu. Dómari afturkallaði trygginguna og senda hann í fangelsi vegna umdeildra tísta þar sem hann bauð meðal annars verðlaun hverjum þeim sem gæti fært honum lokk úr hári Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, árið 2016.


Tengdar fréttir

Seldu einstaka plötu „hataðasta manns internetsins“

Búið er að selja einstaka plötu Wu-Tang Clan sem var áður í eigu manns sem var á árum áður kallaður „hataðasti maður internetsins. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að platan hefði verið seld en ekki fylgdi tilkynningunni hver hefði keypt plötuna né hver verðmiðinn hefði verið.

Shkreli í steininn fyrir tíst um Hillary Clinton

Fjárfestirinn sem ávann sér almannahatur þegar hann stórhækkaði verð á alnæmislyfi bauð fylgjendum sínum á Twitter 5.000 dollara ef einhver þeirra gæti fært honum lokk og hársekk af höfði Hillary Clinton.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×