Fótbolti

Mun ekki yfirgefa PSV til að sitja á bekknum á Englandi

Atli Arason skrifar
Cody Gakpo, leikmaður PSV.
Cody Gakpo, leikmaður PSV. Getty Images

Cody Gakpo, 23 ára hollenskur vængmaður sem spilar með PSV er á óskalista allra stærstu liða Englands í sumar.

Gakpo hefur verið sterklega orðaður við bæði Arsenal og Liverpool að undanförnu en núna í vikunni var greint frá því að bæði Manchester liðin, City og United, væru að íhuga tilboð í vængmanninn upp á 30 milljónir punda.

„Það getur allt skeð í sumar,“ sagði Gakpo í viðtali við hollenska miðilinn De Telegraaf í gær.

Gakpo hefur leikið fjóra landsleiki fyrir Holland og skorað í þeim eitt mark. Leikmaðurinn er með auga á mögulegt sæti í HM hóp hollenska landsliðsins en heimsmeistaramótið fer fram í Katar í desember 2022.

„Það væri algjör synd ef ég færi eitthvað þar sem ég myndi ekki fá að spila og gæti þar af leiðandi misst af HM. Þetta er mér ofarlega í huga.“

Hollendingurinn hefur skorað 21 mark og lagt upp önnur 15 mörk í 47 leikjum í öllum keppnum fyrir PSV á tímabilinu og hefur vakið verðskuldaða athygli en leikmaðurinn kemur upp í gegnum unglingastarf PSV.

„Ég mun núna skoða alla valmöguleika og sjá til hvað er best fyrir mig. Að vera áfram hjá PSV er einn af þessum valmöguleikum,“ sagði Cody Gakpo.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.