Erlent

Skammaði sína æðstu embættismenn fyrir „vanþroska“

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un á fundi stjórnmálanefndar Verkamannaflokks Norður-Kóreu.
Kim Jong Un á fundi stjórnmálanefndar Verkamannaflokks Norður-Kóreu. AP/KCNA

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, skammaði sína æðstu embættismenn fyrir þroskaleysi og fyrir að bregðast í viðbrögðum við faraldri Covid-19 þar í landi. Þetta segja ríkismiðlar Norður-Kóreu að Kim hafi gert á fundi stjórnmálanefndar Verkamannaflokks Norður-Kóreu (Politburo) á dögunum.

Yfirvöld í Norður-Kóreu segja 232.880 íbúa landsins vera með hitaeinkenni eftir að sex voru sagðir hafa dáið vegna Covid. Ekki hafa verið gefnar upp tölur um hve margir hafa greinst með Covid.

Í heildina hafa 1,72 milljónir manna greinst með hitaeinkenni, samkvæmt yfirvöldum og 62 hafa dáið, samkvæmt frétt Reuters.

Norður-Kórea er einangraðasta ríki í heimi og þar eru landsmenn óbólusettir. Til viðbótar við það er heilbrigðiskerfi landsins verulega vanþróað og heilt yfir er fólk ekki talið við góða heilsu, að hluta til vegna langvarandi fæðuskorts í Norður-Kóreu.

Ríkið hefur ekki mikla skimunargetu og óttast sérfræðingar að faraldurinn gæti haft verulega slæm áhrif á ríkið. Ríkisstjórn Norður-Kóreu segir hins vegar að jákvæð teikn séu á lofti í faraldrinum og fólki með einkennum fari fækkandi milli daga.

Yonhap fréttaveitan hefur eftir Kim að embættismenn hafi ekki brugðist nógu hratt við á fyrstu stigum faraldursins í Norður-Kóreu. Það hefði leitt til aukinna vandræða fyrir þjóðina og það þyrfti að bæta sem fyrst.

Athygli hefur vakið að Kim og aðrir á fundinum voru ekki með grímur, því Kim sást með tvær grímur fyrr í vikunni.


Tengdar fréttir

Óttast ný afbrigði í Norður-Kóreu

Faraldur kórónuveirunnar á meðal óbólusetts fólks eins og nú geisar í Norður-Kóreu eykur hættuna á að ný afbrigði verði til, að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Stjórnvöld í Norður-Kóreu viðurkenndu í fyrsta skipti að veiran hefði stungið sér niður í landinu á dögunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×