Innlent

Rúm­lega 2.500 ung­menni ekki í vinnu, námi eða starfs­þjálfun

Eiður Þór Árnason skrifar
Nokkur munur er á hlutfalli þeirra sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir aldri.
Nokkur munur er á hlutfalli þeirra sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir aldri. Vísir/vilhelm

Árið 2021 er áætlað að 6,3% ungs fólks á aldrinum 16 til 24 ára hafi ekki verið í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Jafngildir það því að þetta hafi átt við um rúmlega 2.500 ungmenni í fyrra.

Á síðustu tíu árum var hlutfallið lægst 4,9% árið 2017 en hæst 7,4% árið 2020. Hlutfallið lækkar úr 7,4% í 6,3% milli 2020 og 2021 en það tók stökk árið sem kórónuveirufaraldurinn braust út hér á landi.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands en nokkur munur er á hlutfalli þeirra sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir aldri. Hlutfallið er töluvert lægra meðal fólks á aldrinum 16 til 19 ára en stór hluti þess stundar nám.

„Á síðustu fimm árum var hlutfall ungs fólks á aldrinum 16-19 ára, sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun, hæst 4,5% árið 2020 en lægst 2,7% árið 2021 og hefur hlutfallið ekki verið lægra frá árinu 2004 innan þessa aldurshóps. Á síðustu fimm árum hefur hlutfall þeirra sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun hækkað á meðal ungs fólks á aldrinum 20-24 ára úr 6,2% árið 2017 í 9% árið 2021,“ segir í samantektinni.

Hlutfallið hæst árið 2020

Að sögn Hagstofunnar voru 9,8% innflytjenda ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun árið 2021 en á síðustu tíu árum var hlutfallið lægst 1,1% árið 2016 og hæst 16,5% árið 2012. Hlutfall þeirra sem voru með íslenskan bakgrunn á aldrinum 16 til 24 ára, sem voru ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun, var 6% árið 2021. Á undanförnum tíu árum var hlutfallið lægst 5% árið 2017 og hæst 7,4% árið 2020.

Með innflytjanda á Hagstofan við einstakling sem er fæddur erlendis, á foreldra sem báðir eru fæddir erlendis auk þess að eiga afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis.

Innlendir geta verið einstaklingar með engan erlendan bakgrunn, einstaklingar með engan erlendan bakgrunn sem eru fæddir erlendis, einstaklingar sem eru fæddir á Íslandi og annað foreldri er erlent, og einstaklingar sem eru fæddir erlendis, eiga foreldra sem fæddir eru erlendis en a.m.k. eina ömmu eða afa sem fædd/ur er á Íslandi. Annarrar kynslóðar innflytjendur flokkast sem innlendir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×