Íslenski boltinn

Besta byrjunin síðan að ofurlið KR-inga vann alla leiki sína fyrir 63 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar hér sjöunda markinu sínu í Bestu deildinni í sumar.
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar hér sjöunda markinu sínu í Bestu deildinni í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Blikar urðu í gær aðeins sjöunda liðið í sögu efstu deildar til að vinna sex fyrstu leiki sína á Íslandsmótinu en það þarf að fara allt aftur til ársins 1959 til að finna lið með betri markatölu.

Breiðablik vann 3-0 sigur á Íslandsmeisturum Víkings á útivelli í gær og er því með 18 stig í húsi af 18 mögulegum stigum.

Ekkert lið hefur verið með fullt hús og plús fimmtán í markatölu síðan að KR-ingar náðu því sumarið 1959.

KR-ingar skoruðu 27 mörk gegn aðeins þremur í fyrstu sex leikjum sínum 1959 en voru þó bara með tólf stig því á þeim árum var þriggja stiga reglan ekki í gildi.

KR-liðið frá 1959 er eina liðið í sögunni sem hefur unnið alla deildarleiki sína á sumri frá því að tvöföld umferð var tekin upp.

KR-ingar unnu alla tíu leiki sína fyrir 63 árum en markahæstu leikmenn þess liðs voru þeir Þórólfur Beck (16 mörk), Sveinn Jónsson (10 mörk) og Ellert B. Schram (8 mörk).

Síðasta liðið á undan Blikum til að vinna fyrstu sex leiki sína var lið FH sumarið 2005 en það FH-liðið var búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn þremur umferðum fyrir lok móts.

Sex af þessum sjö liðum urðu Íslandsmeistarar um haustið eða öll lið nem Keflavíkliðið frá 1997. Keflavík vann sex fyrstu leiki sína fyrir 25 árum síðan en síðan aðeins einn af síðustu tólf leikjum síðan sem þýddi að liðið endaði mótið í sjötta sæti.

  • Besta byrjun í fyrstu sex leikjunum í efstu deild:

  • KR 1959 6 sigrar og +24 í markatölu (27-3)
  • Breiðablik 2022 6 sigrar í 6 leikjum og +15 í markatölu (19-4)
  • FH 2005 6 sigrar í 6 leikjum og +14 í markatölu (16-2)
  • Keflavík 1973 6 sigrar í 6 leikjum og +13 í markatölu (15-2)
  • Valur 1978 6 sigrar í 6 leikjum og +12 í markatölu (17-5)
  • ÍA 1995 6 sigrar í 6 leikjum og +10 í markatölu (12-2)
  • Keflavík 1997 6 sigrar í 6 leikjum og +9 í markatölu (11-2)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.