Íslenski boltinn

Skoraði í Bestu deildinni 2021 og stefnir á að dæma í henni árið 2023

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórður Þorsteinn Þórðarson hefur leikið 96 leiki í efstu deild karla.
Þórður Þorsteinn Þórðarson hefur leikið 96 leiki í efstu deild karla. Vísir/Bára Dröfn

Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson er að fara öðruvísi leið innan fótboltans en við höfum séð áður. Hann er hættur að spila þremur árum fyrir þrítugsafmælið en hefur þess í stað snúið sér að dómgæslu.

Þórður Þorsteinn vantar bara fjóra leiki í að spila hundrað leiki í efstu deild og hefur einnig skorað tíu mörk í deildinni.

Hann hefur nú sett stefnuna á að hundraðasti leikurinn sem hann tekur þátt í Bestu deildinni verði sem dómari. Fótbolti.net birti viðtal við Þórð Þorstein sem hefur sett sér það markmið að vera búinn að dæma leik í efstu deild fyrir lok næsta tímabils.

Þórður Þorsteinn skoraði síðast í deildinni í maímánuði í fyrra og lék sinn síðasta leik í deildinni 11. september í fyrra.

Hann var byrjaður að hugsa út í að fara dæma og var búinn að dæma einn æfingarleik ÍA þegar Jóhannes Karl Guðjónsson, þáverandi þjálfari ÍA, hringdi í hann og bauð honum samning. Þórður spilaði því með Skagamönnum í fyrrasumar en hefur nú lagt gula búningnum og klætt sig í þann svarta.

„Ein af aðalástæðunum fyrir því að ég byrjaði dæma er að ég tel mig geta náð lengra sem dómari í dag heldur en leikmaður. Ég er orðinn 27 ára, líkaminn er í toppstandi og maður stefnir á að komast í FIFA-dómarann," sagði Þórður í viðtalinu við Fótbolta.net.

„Ég held að mín reynsla sem fótboltamaður sé einn af mínum helstu kostum sem dómari - minn leikskilningur. Ég held að ég geti fullyrt það að það sé enginn dómari á Íslandi sem eigi að baki tæplega 100 leiki í efstu deild. Það gæti verið einsdæmi í heiminum," sagði Þórður Þorsteinn en það má finna allt viðtalið hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.