Fótbolti

Bellingham ætlar ekki að fylgja Haaland til Englands

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Efnilegur.
Efnilegur. vísir/getty

Þýska úrvalsdeildarliðið Borussia Dortmund þarf ekki að hafa áhyggjur af því að missa annan af sínum verðmætustu leikmönnum í sumar en ljóst er að sá verðmætasti mun yfirgefa félagið þar sem Norðmaðurinn Erling Braut Haaland er á leið til ensku meistaranna í Manchester City.

Hinn átján ára gamli Jude Bellingham, sem er enskur, hefur verið reglulega orðaður við mörg af stærstu félögum heims en hann er algjör lykilmaður hjá Dortmund þrátt fyrir ungan aldur.

Bellingham ólst upp hjá Birmingham en Man Utd, Man City, Liverpool og Chelsea eru öll sögð hafa áhuga á að reyna að lokka kappann aftur heim til Englands.

Hann var spurður út í framtíð sína í kjölfar sölunnar á Haaland til Man City.

„Eina framtíðin sem ég er að hugsa um er næsti leikur með Dortmund. Ég verð hér á næsta tímabili og er klár í það.“

Hinn 21 árs gamli Haaland hefur raðað inn mörkum í þýska boltanum undanfarin ár og verður spennandi að sjá hann taka skrefið í enska boltann.

„Ég óskaði honum til hamingju og er ánægður með að hann gat tekið næsta skref,“

„Man City eru mjög heppnir að hafa fengið hann. Hann er frábær leikmaður og frábær gaur. Ég mun sakna hans,“ segir Bellingham.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.